Bjarni Jónsson og Astrid Ellingsen

Málverk og handprjónaðir kjólar

Hjónin Astrid Ellingsen, prjónahönnuður, og Bjarni Jónsson, listmálari, opnuðu stóra sýningu í Hafnarborg laugardaginn 7. október 1989, þar sem þau sýndu hvort um sig eigin verk. Astrid sýndi handprjónaða kjóla en Bjarni sýndi fjölbreyttar myndir, olíumálverk, akrýlmyndir og teikningar.

Astrid sýndi í fyrsta sinn skírnarkjóla úr bómull, sem voru svo vandaðir að þeir skyldu endast í marga ættliði, enda hugsaðir sem fjölskydukjólar. Astrid var um árabil hönnuður fyrir Álafoss, auk þess sem prjónauppskriftir eftir hana höfðu verið birtar í innlendum og erlendum blöðum eða tímaritum.

Bjarni sótti viðfangsefni sín í þjóðhættina, til sjós og lands, en einnig sýndi hann nokkrar óhlutbundnar myndir í fyrsta sinn í langan tíma. Bjarni hafði þá haldið fjölda sýninga hér á landi, jafnframt því að taka þátt í samsýningum erlendis, teikna í bækur, blöð og tímarit, svo sem ritið Íslenzka sjávarhætti, Orðabók Menningarsjóðs, námsbækur og fleira.