ART=TEXT=ART

Úr safneign Sally og Wynn Kramarsky

Verk eftir samtímalistamenn úr safneign Sally og Wynn Kramarsky

Hafnarborg sýnir verk hátt í fimmtíu alþjóðlegra myndlistarmanna en verkin eiga það sameiginlegt að hafa sjónræna eða hugmyndalega tengingu við texta og ritað mál. Á sýningunni eru á níunda tug listaverka sem unnin eru á árunum 1960 til 2011. Verkin eru flest eftir Bandaríska listamenn sem einkum teljast til minimalista, póstminimalista og hugmyndalistamanna. Einnig eru á sýningunni verk eftir íslenska myndlistarmanninn Jón Laxdal.

Sýningin Art=Text=Art veitir áhugaverða innsýn í það hvernig myndlistarmenn nota texta bæði sem efnivið og sem hugmyndalegan grunn í verk sín. Sýnd eru verk þar sem listamenn nota texta sem lit, form eða til myndbyggingar en einnig verk sem kanna merkingu texta og áhrifamátt hans til að miðla hugmynd. Efniviður nær allra verkanna er pappír og einkennast þau af sterkri efniskennd og hafa mörg sérstöðu í höfundarverki listamannanna. Wynn Kamarsky hefur safnað myndlist frá því um miðja 20. öld og telur safneign hans nú á þriðja þúsund listaverka eftir nútíma- og samtímalistamenn. Hafnarborg hefur í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík fengið sýninguna til Íslands frá New York en hún hefur áður verið sýnd í tveimur söfnum í Bandaríkjunum. Sýningarstjórar eru N. Elizabeth Schlatter listfræðingur og Rachel Nackman, sýningarstjóri Kramarsky Collection. Eftirtaldir listamenn eiga verk á sýningunni: William Anastasi, Frank Badur, Jill Baroff, Robert Barry, Kry Bastian, Suzanne Bocanegra, Mel Bochner, Dove Bradshaw, Stephanie Brody-Lederman, Trisha Brown, Buster Cleveland, Russell Crotty, Annabel Daou, Stephen Dean, Elena del Rivero, Donald Evans, Dan Flavin, John Fraser, Jane Hammond, Nancy Haynes, Christine Hiebert, Jasper Johns, Ray Johnson, Bronlyn Jones, Jón Laxdal, Ann Ledy, Sol LeWitt, K. McGill Loftus, Mark Lombardi, Stefana McClure, Mary McDonnell, Deborah Gottheil Nehmad, Jill O’Bryan, Gloria Ortiz-Hernández, Susanna Harwood Rubin, Raphael Rubinstein, Ed Ruscha, Karen Schiff, Joel Shapiro, Sara Sosnowy, Molly Springfield, Allyson Strafella, Lenore Tawney, Cy Twombly, John Waters og Lawrence Weiner.

Sýningunni fylgir veflæg sýningarskrá, www.artequalstext.com, þar sem lesa má texta eftir sýningarstjóra og fleiri auk þess sem þar er að finna myndir af listaverkunum.

Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2013.


Texti sýningarstjóra:
Art = Text = Art

Hæfni til breytinga er nauðsynleg lífsafkomu bæði tungumáls og listar. Tækninýjungar síðustu ára hafa haft áhrif á notkun okkar á tungumálinu. Hvaða áhrif hefur þetta á það hvernig við skoðum myndlist sem felur í sér texta? Eða, eins og á við um nokkur verk sýningarinnar Art=Text=Art, list sem fjallar um augljósan skort á texta? Höfum í huga að fyrir mörgum okkar er upplifun af texta önnur en hún var fyrir aðeins áratug síðan. Fyrir tilstilli tækni, og þá sérstaklega smáskilaboða og tölvupósts, hafa skrif og lestur þröngvað sér inn í líf okkar þar sem þessa naut ekki við áður, svo sem í mitt samtal, á fundi eða fyrirlestra, við akstur, í svefnherbergið og baðherbergið. Þessi flæðandi og takmarkalausa tenging við texta hefur áhrif á sköpun textamiðaðrar myndlistar á tuttugustu og fyrstu öld og breytir upplifun okkar af slíkum verkum sem gerð voru á árum áður. Þetta sést þegar tvær teikningar eftir William Anastasi, Orðateikning yfir hraðritunar æfingu frá 1962, eru bornar saman við verk Annabel Daou,Yfirlýsing um ástæðu og nauðsyn þess að vígbúast frá 2006. Í verkunum þremur er rithönd listamannsins og texti sem upphaflega er eftir annan höfund. Verk Anastasi byggja á æfingum í hraðritun en verk Daou er handskrifað afrit af skjali sem Thomas Jefferson gerði í aðdraganda frelsisstríðs Bandaríkjanna árið 1775. Anastasi kynnti sér strauma í heimspeki og táknfræði og kannaði samband tungumáls, myndar og merkingar líkt og fleiri af fyrstu kynslóð myndlistarmanna sem markvisst notuðu texta, listamanna eins og Lawrence Weiner, Sol LeWitt og Robert Barry. Á teikningu Anastasi eru prentuð hraðritunartákn sem hafa enga tengingu við orðin sem listamaðurinn handskrifar. Þessi tengsl orða og tákna fá áhorfandann til að velta fyrir sér hvernig merking er gefin til kynna og hvernig hún verður persónuleg. Nú í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar sýna teikningar Anastasi ekki aðeins táknfræðileg merkingabrigði heldur minna þær einnig á veika stöðu handskriftar sem tjáningaraðferðar og samskiptamáta. Í fyrstu vekur afritun Daou sjónræna hrifningu vegna magns hins handskrifaða texta sem komið er fyrir á tiltölulega litlu blaði. Það val Daou að nota handskrift árið 2006 byggir á öðru en ákvörðun Anastasi að handskrifa árið 1962. Á tímum sífelldrar notkunar fartölva, snjallsíma og spjaldtölva ásamt frjálsum aðgangi að sögulegum skjölum á internetinu, undirstrikar handrituð afritun texta að upplifun hans sé bæði huglæg og líkamlega. Áhorfendur samtímans skynja, ef til vill ómeðvitað, hið mikilvæga samband texta og handar sem vitnar um afar persónulegan, tímafrekan og úreltan samskiptamáta. Fortíðarþrá, sem þó virðist án ásetnings, einkennir nokkur verk sýningarinnar. Frímerki Donald Evans frá áttunda áratugnum sem gerð eru fyrir ímynduð samfélög, póstlist Ray Johnson frá áttunda og níunda áratugnum og ART FOR UM áskriftarsería Buster Cleveland frá tíunda áratugnum eru verk sem erfitt er að skoða án þess að leiða hugann að hverfandi notkun póstþjónustu. Í nokkrum verka frá síðustu tíu árum eru notaðar aðferðir sem eru á undanhaldi við skrásetningu, dreifingu og móttöku texta. Allyson Strafella og Stefana McClure nota tákn og einkenni vélritunar en á þann hátt að þau verða gagnslaus sem samskiptamáti. Karen Schiff vísar í framsetningu texta og mynda í dagblöðum og myndskreyttum handritum. Með því að nota gamlar og gulnaðar blaðsíður skapa John Fraser og Suzanne Bocanegra óljósar frásagnir úr auðþekkjanlegum efniviði sem vekur upp minningar. Önnur verk sýningarinnar minna okkur á að lestur er lærð athöfn. Það á við um prentverkaseríur Mel Bochner, Ef liturinn breytist…, frá árinu 2003. Verkin sýna sporöskjur eða rétthyrninga í björtum bleklitum en yfir þá hefur Bochner prentað tilvitnun í texta austurríska heimspekingsins Ludwig Wittgenstein,Remarks on Colour, með svörtum sans-serif hástöfum. Textabrotið er prentað á ensku og þýsku og þýðingarnar settar hvor ofan á aðra. Bochner leikur sér að hugmyndum um torræðni og gagnsæi tungumálsins (þema sem hann vinnur stöðugt með í verkum sínum), skilgreiningu á litum og það að vera ófær um „sjá“ listaverk fagurfræðilega samtímis því að lesa texta á sama fleti. Verk Cy Twombly sem er án titils frá 1971 og 35 dagar eftir John Waters frá árinu 2003 reyna á þolmörk læsileika handskriftar. Grátt Sex eftir Ed Ruscha frá 1979 og verk Susanna Harwood Rubin, 102 boulevard Haussmann frá 2000, nýta getu hugans að þekkja orð með lágmarks vísbendingum og tengja þessi orð persónulegum tilvísunum. Innan samhengis sýningarinnar verða ákveðin verk læsilegri, eða í það minnsta textalegri, en ef þau væru sýnd ein og sér. Sem dæmi má nefna Úrklippubók eftir Jane Hammond frá 2003, sem birtir persónulegan og myndrænan orðaforða listamannsins, þrjár stúdíur eftir Christine Hieberts, Án titils (brennimerki) frá 1998-99, sem sýnir að því er virðist nýtt letur og verk Joel Shapiro frá 1969 þar sem skráning smárra fingrafara gefur til kynna óhugnanlega skrásetningu mannlegrar hegðunar. Nokkur verk á sýningunni vísa til þess hvernig upplýsingar og töluleg gögn eru myndgerð. Eldri dæmi er verk Mark Lombardi, Uppbygging spilavíta á Bahamaeyjum frá um 1955-89 (fjórða útgáfa), sem gefur skýringarmynd af flóknu og spilltu kerfi valdatengsla og peningaflæðis á milli einstaklinga og fyrirtækja. Annað dæmi eru verk danshöfundarins Trisha Brown frá árinu 1975, hugsuð sem hjálpartækir fyrir dansara svo að þeir sjái fyrir sér uppbyggingu og ferli hreyfinga í dansverki. Í nýlegri verkum á sýningunni vinna listamenn einnig með ákveðin gögn eða upplýsingar. Persónuleg túlkun og óregluleg afritun sem koma í stað stöðlunar gera verkin þó sérstaklega ljóðræn enda víkur hagnýtur tilgangur fyrir listrænni tjáningu. Án titils (sjávarfalla teikning) eftir Jill Baroff frá árinu 2006 er hluti af seríu verka sem taka mið af skrásetningu vatnshæðar á mismunandi stöðum á um það bil tveimur til þremur dögum. Hins vegar virðist verkið fremur túlka hrynjandi vatnsins fremur en gefa til kynna raunverulegar mælingar. Pensilstrokur úr Viktoríönsku blómaalbúmi: Draumsóley eftir Suzanne Bocanegra frá árinu 2000 líkir eftir og flokkar pensilstrokur myndskreytis bókar frá nítjándu öld. Bókverk Jill O‘Bryan, Andardrættir #1 frá árinu 2010, hefur að geyma títuprjónagöt sem merkja andartök listamannsins. Tilgangurinn er ekki að skrásetja verknað heldur að vísa í flæði svipmynda og í hugmyndina um loft sem flæðir og hreyfist í gegnum líkama rétt eins og það hreyfist í gegnum götin á bókinni þegar blaðsíðunum er flett. Þegar við skoðum listaverkin á sýningunni Art=Text=Art í samhengi við nýja samskiptamáta verður gildi og mikilvægi myndlistar þar sem unnið er út frá texta augljóst. Eldri verkin, frá sjöunda áratugnum og fram á þann tíunda, halda upprunalegu inntaki sínu en öðlast nýtt gildi þökk sé hlutverki texta í nútímasamfélagi. Nýjustu verkin eru gerð eru á tímum þegar texti gegnsýrir allt daglegt líf og hefur það veruleg áhrif á sköpun og viðtökur verkanna. N. Elizabeth Schlatter, sýningarstjóri Stytt útgáfa af grein sem finna má í veflægri sýningarskrá á www.artequalstext.com