Í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Hönnu Davíðsson (1888-1966) var haldin yfirlitssýning á verkum myndlistarkonunnar, er opnaði þann 3. desember 1988, sem hefði einmitt orðið 100 ára afmælisdagur listakonunnar. Sýningin var einstæð að því leyti að verk Hönnu höfðu aldrei komið fyrir almenningssjónir fyrr, utan örfárra mynda sem sýndar voru í glugga Morgunblaðshússins á síðari hluta sjötta áratugarins. Verkin á sýningunni voru 124 talsins, öll í einkaeign.
Verkin spönnuðu 60 ára tímabil, frá 1906 til 1966, en eftir Hönnu liggja aðallega blómamyndir, unnar með blandaðri tækni, og andlitsmyndir, auk blýantsteikninga og nokkurra olíumálverka. Einnig liggja eftir hana fáeinar vatnslitamyndir, unnar á silki. Þekktust er Hanna þó líklega fyrir að hafa myndskreytt skírnarfont og predikunarstól í Fríkirkjunni í Hafnarfirði en það verk var hún beðin að vinna í kjölfar breytinga sem gerðar voru á kirkjunni á árunum 1930-31. Því verki lauk hún árið 1935.
Hanna stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn á fyrsta áratug tuttugustu aldar en þar dvaldi hún um 5 ára skeið. Hún var meðal fyrstu íslensku kvennanna sem lögðu slíkt nám fyrir sig þar. Hanna fluttist til Hafnarfjarðar árið 1912 og bjó það sem eftir var ævinnar, nær óslitið, í Hafnarfirði.