Aðalheiður Skarphéðinsdóttir

Grafík og teikningar

Þann 26. ágúst 1989 opnaði Aðalheiður Skarphéðinsdóttir (f. 1950) sýningu á verkum sínum í Hafnarborg. Á sýningunni voru teikningar og grafík, auk textílverka. Sýningin var önnur einkasýning Aðalheiðar og fyrsta sýning hennar í Hafnarfirði, þar sem hún fæddist og ólst upp.

Aðalheiður stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1967-71 og lauk þaðan prófi úr kennaradeild árið 1971. Sama ár fór hún til framhaldsnáms til Svíðþjóðar og lærði textílhönnun við Listiðnaðarháskólann Konstfalk í Stokkhólmi, þaðan sem hún útskrifaðist 1980. Jafnframt lagði hún stund á grafík við Kollektiva-verkstæðið í Stokkhólmi á árunum 1978-1980.

Aðalheiður hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi en einnig í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Japan, þar sem hún átti verk á Listiðnaðarsýningunni The Way of Life 1987-88.