Vor í lofti – Tónleikar

Hanna Dóra Sturludóttir ásamt Camerarctica

Vor í lofti er yfirskrift söng- og kammertónleika á Björtum dögum í Hafnarfirði síðasta vetrardag, miðvikudagskvöldið 22.apríl. Tónleikarnir eru haldnir í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar og hefjast þeir kl. 20:00.

Fram koma Hanna Dóra Sturludóttir söngkona ásamt félögum úr Camerarctica, þeim Ármanni Helgasyni, klarinettuleikara, Hildigunni Halldórsdóttur fiðluleikara, Hávarði Tryggvasyni kontrabassaleikara og Ingunni Hildi Hauksdóttur píanóleikara.

Dagskráin samanstendur af ljóðum og textum sem bera vor og sumar í lofti. Flutt verða sönglög fyrir söngrödd, klarinettu og píanó eftir tónskáld rómantíska tímabilsins, þá Louis Spohr og Johannes Brahms og “Sumarskuggar”eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Einnig hljómar á tónleikunum Tríó eftir Aram Khachaturian fyrir klarinettu, fiðlu og píanó sem byggir á armenskum þjóðlögum og fjörugum dönsum og himnasöngurinn”Wir geniessen die himmlischen Freuden” úr fjórðu sinfóníu Mahlers verður fluttur í glæsilegri útsetningu fyrir fyrir sópran, klarinettu og píanó.

Í lokin flytur hópurinn nokkur af ljóðum Jónasar Hallgrímssonar við tónlist Atla Heimis Sveinssonar þ.á.m. Dalvísu, Heylóarvísu og Vorvísu.

Miðasala við innganginn. Miðaverð kr. 2500 og helmingsafsláttur fyrir nemendur, eldri borgara og öryrkja.