Vetrarfrí í Hafnarfirði – listasmiðjur í Hafnarborg

Hafnarborg býður grunnskólabörnum í Hafnarfirði að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins í vetrarfríi, 23. og 24. febrúar. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.

Skúlptúrsmiðja
Fimmtudaginn 23. febrúar kl. 13-15
Unnið verður með gifs til þess að búa til skúlptúra í anda listakonunnar Sóleyjar Eiríksdóttur en um þessar mundir stendur yfir sýning á verkum hennar í safninu. Sóley sjálf vann stærri skúlptúra sína með því að klæða burðargrind með steinsteypu en þar kemur gifsið inn að þessu sinni. Leiðbeinandi er Unnur Mjöll S. Leifsdóttir, myndlistarmaður og sérfræðingur á skrifstofu Hafnarborgar. 

Plánetusmiðja
Föstudaginn 24. febrúar kl. 13-15
Í smiðjunni munu þátttakendur vinna með ýmis litrík efni til þess að búa til sínar eigin plánetur sem breytast í snúningi og ljósi. Saman munu pláneturnar svo mynda sólkerfi sem lýsir upp „himinhvolfið“. Leiðbeinandi er Þórdís Erla Zoëga, myndlistarmaður.

Smiðjurnar fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins en mælst er til að börn mæti í fylgd fullorðinna. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins. Verið hjartanlega velkomin.