Hafnarborg býður grunnskólabörnum í Hafnarfirði að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins í vetrarfríi, 23. og 24. febrúar. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.
Vinsamlegast athugið að listasmiðju sem var á dagskrá safnsins á morgun, þriðjudaginn 24. október, hefur verið aflýst vegna Kvennaverkfallsins. Ný dagsetning verður auglýst síðar. Nánari upplýsingar um Kvennaverkfallið má finna á www.kvennafri.is.
Litrík vegghengi
Mánudaginn 23. október kl. 13-15
Í smiðjunni fá þátttakendur að kynnast töfraheimi litanna með því að búa til vegghengi úr litríku garni. Farið verður yfir litahjólið og grunnhugtök í litafræði eins og andstæða, heita og kalda liti, sem og gildi, tóna og styrk lita. Þátttakendum verða sýnd dæmi um hvernig litir hafa áhrif hver á annan og hvernig hægt er að búa til mismunandi stemningu eftir samsetningu og röðun litanna. Leiðbeinandi er Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, myndlistarmaður.
Hattar og Sól
Þriðjudaginn 24. október kl. 13-15
Sól Hansdóttir, fatahönnuður og einn sýnenda á haustsýningu Hafnarborgar, Landslag fyrir útvalda, leiðir listasmiðju þar sem þátttakendur munu búa til hatt með listrænni útfærslu undir hennar handleiðslu. Þar verður kannað hvernig og hvenær hattur verður meira en aðeins nothæft höfuðfat, heldur skúlptúr eða listaverk í sjálfu sér. Allt efni til sköpunarinnar er útvegað af Hafnarborg.
Smiðjurnar fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins en mælst er til að börn mæti í fylgd fullorðinna. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins. Verið hjartanlega velkomin.