VARA-LITIR – Sýningarstjóraspjall

Birta Fróðadóttir

Birta Fróðadóttir ræðir við gesti um sýninguna VARA-LITI í Hafnarborg sunnudaginn 2. nóvember kl.15.

Birta Fróðadóttir er arkitekt að mennt en hefur komið víða við í starfi. Hún hlaut meistaragráðu í arkitektúr við listakademíuna í Kaupmannahöfn og starfaði þar við byggingar- og landslagsarkitektúr í 4 ár. Þaðan hélt hún til Berlínar þar sem hún starfaði sjálfstætt fyrir myndlistarmenn auk þess að vera sýningarstjóri heimagallerísins 13m á Turmstrasse í Moabit. Hún hefur auk þess fengist við uppsetningar og hönnun sýninga, heimildamyndagerð og leikmyndagerð. Vara-litir er fyrsta sýningarstjóraverkefni hennar á Íslandi.

VARA-LITIR er sýning á nýjum málverkum eftir sjö samtíma myndlistarmenn sem allir eru fæddir eftir 1970 og vinna markvisst að málaralist í sköpun sinni.  Bjartir og fjörmiklir litir eru áberandi á sýningunni og undirstrika óttaleysi og hispurslausa tjáningu listamannanna. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlutbundin og eru hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik. Sýningin streymir um rýmið og persónuleg sköpun rennur saman við heildarflæði sýningarinnar. Taumlaus tjáning og litagleði Vara-lita er kærkomin hressing í rökkvuðu skammdeginu – og aðdráttarafl verkanna í heild óhjákvæmilegt.