Umrót – sýningarlok og listamannsspjall

Sunnudaginn 17. mars eru síðustu forvöð að sjá Umrót, sýningu á nýjum verkum eftir Mörtu Maríu Jónsdóttur. Af því tilefni verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna kl. 14 með listamanninum, ásamt forstöðumanni Hafnarborgar, Ágústu Kristófersdóttur.

Verk Mörtu Maríu eru óhlutbundin, á mörkum teikningar og málverks, og myndheimurinn ljóðrænn og opinn. Þau sýna óræðan heim sem er við það að leysast upp, heim sem er á mörkum þess að myndast eða eyðast. Pensilstrokur og flæði litarins virka sem stoðir málverksins, liggja ekki ofan á myndfletinum heldur byggja upp myndina. Hrár ómálaður striginn verður hluti af myndheiminum, eins og þögn í tónlist eða bil í texta. Verkin fjalla um málverkið sjálft, tilurð þess og merkingu.

Marta María Jónsdóttir (f. 1974) nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaragráðu í myndlist frá Goldsmiths College í London árið 2000. Hún hefur einnig lokið diplómanámi í hreyfimyndagerð frá London Animation Studio. Í verkum sínum kannar Marta María mörkin á milli teikningar og málverks, eins og áður segir. Litur skipar stórt hlutverk og ólíkir litafletir, línur og form byggja upp myndflötinn. Línan og teikningin er notuð sem efnisleg bygging myndanna, sem eru lagskiptar og marglaga og saman mynda þær eina heild.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.