Sunnudaginn 16. maí, í framhaldi þess að Libia Castro & Ólafur Ólafsson munu setja aftur upp verk sitt, sem fjarlægt var af gafli Hafnarborgar 2. maí síðastliðinn, mun tvíeykið leiða gesti um sýningu sína og Töfrateymisins, Töfrafund – áratug síðar, sem opnaði í safninu í mars og stendur yfir til loka þessa mánaðar.
Þá hafa listamennirnir boðið almenningi að vera viðstaddur enduruppsetningu verksins á gafl safnsins milli kl. 14 og 16 en jafnframt verður haldin Töfrasmiðja í Sverrissal Hafnarborgar, þar sem listamennirnir hafa verið með opið vinnurými frá því að sýningin opnaði, boðið upp á vinnustofur, viðburði og aðgerðafundi – meðal annars.
Í smiðjunni mun myndlistarkonan og silkiþrykksérfræðingurinn María Pétursdóttir hafa umsjón með prentun ýmiss konar verka í anda sýningarinnar en auk þess fæst fyrirfram prentaður varningur – peysur, bolir, taupokar, plaköt, o.fl. – keyptur á staðnum í safnbúð Hafnarborgar, sem umbreyst hefur í Stjórnarskrárbúð á meðan sýningunni stendur.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.