Þögult vor – sýningarlok og leiðsögn

Sunnudagurinn 17. maí er síðasti sýningardagur Þöguls vors, sem opnaði í Hafnarborg sem hluti af Ljósmyndahátíð Íslands í janúar síðastliðnum. Þá verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna kl. 14 ásamt Unni Mjöll S. Leifsdóttur, safn- og fræðslufulltrúa Hafnarborgar, þar sem hún mun segja gestum og gangandi frá sýningunni, sem var framlengd vegna fordæmalausra aðstæðna. Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Hertta Kiiski, Katrín Elvarsdóttir og Lilja Birgisdóttir og sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.

Á sýningunni kalla Lilja, Hertta og Katrín fram ljúfar og hlýjar tilfinningar gagnvart náttúrulegu umhverfi okkar, sem er illa vanrækt og stendur á barmi glötunar. Í von um að ná að vekja tímabæra virðingu fyrir viðkvæmu ástandi hins hrörnandi heims einbeita þær sér að fegurðinni í því fundna, sem fær þannig að ganga í endurnýjun lífdaga. Andspænis hnattrænni hlýnun beita þær þá bæði ljósmyndamiðlinum og næmri, efnislegri nálgun við umhverfi sem þarfnast jafnt athygli og alúðar.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.