Það sem fyrir augu ber – prent-listasmiðja

Laugardaginn 6. mars kl. 14 verður boðið upp á prent-listasmiðju fyrir fjölskyldur í tengslum við sýningu Gunnars Hjaltasonar, Það sem fyrir augu ber. Þar verða verk Gunnars skoðuð og aðferðir hans og tækni rædd. Gestum gefst svo tækifæri til að vinna sín eigin grafíkverk undir faglegri handleiðslu en notast verður við gel-plötur við prentunina.

Sýningin Það sem fyrir augu ber stendur til 21. mars næstkomandi. Gunnar Hjaltason (1920-1999) starfaði sem gullsmiður í Hafnarfirði um árabil en ástríða hans lá í myndlist. Verk hans voru sýnd víða, allt frá Eden í Hveragerði til Bogasals Þjóðminjasafnsins. Hann málaði með olíu, akrýl og vatnslitum en á þessari sýningu eru grafíkverk hans í forgrunni, enda fjölmörg slík verk varðveitt í safni Hafnarborgar. Myndefnið er landslag, bæjarlandslag Hafnarfjarðar og náttúra Íslands.

Grímuskylda er á viðburðinum fyrir gesti fædda árið 2005 og fyrr, auk þess sem tveggja metra fjarlægð skal höfð milli óskyldra aðila.