Sýningarspjall – Teikningar/skissur í leir og textíl

Sunnudaginn 28. apríl kl. 14 munu Kristín Garðarsdóttir, leirlistamaður og hönnuður, og Brynhildur Pálsdóttir, sýningarstjóri, fjalla um sýninguna Teikningar/skissur í leir og textíl, sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar en þar má sjá afrakstur vinnu Kristínar í European Ceramic Workcenter (EKWC) og TextielLab í Hollandi.

Sýningin er óður til skissunnar, upphafsins og tilraunanna, þar sem hugmyndirnar eru frjálsar og flæða óhindrað úr einu í annað. Vinnan hefst með skissum og teikningum, sem síðan færast af blaði og yfir í önnur efni. Þetta ferli er áþreifanlegt í vinnu og verkum Kristínar. Skissur og teikningar sem voru unnar á áratugagamlan bókhaldspappír eru yfirfærðar í leir og textíl með ólíkum aðferðum, allt frá einföldum og frumstæðum yfir í hátæknilegar. Afrakstur þessa ferlis eru hlutir sem endurspegla handverk, þekkingu og tækni, þar sem notagildið er stundum skýrt en stundum óljóst.

Sýningin var opnuð á HönnunarMars og stendur til 26. maí næstkomandi.

Aðgangur er ókeypis.