Sýningarlok og leiðsögn safnstjóra

Sunnudagurinn 22. október er síðasti sýningardagur sýningnanna Málverk – ekki miðill í aðalsal Hafnarborgar og Erindi, innsetning eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur í Sverrissal.

Klukkan 14 sama dag mun Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, vera með leiðsögn um sýningarnar.

Sýningin Málverk – ekki miðill fjallar um málverkið og forsendur þess í því eftir-miðla umhverfi sem einkennir list samtímans. Er hún tækifæri til að hugsa um þá hugmynd að málverk verði best skilið sem eitthvað annað en sá miðill sem listamaðurinn velur sér að vinna í.

Jóhannes Dagsson er sýningarstjóri sýningarinnar en hugmynd hans að sýningunni var valin úr innsendum sýningartillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu ársins 2017 í Hafnarborg.
Listamenn á sýningunni eru Fritz Hendrik Berndsen, Hildur Bjarnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jakob Veigar Sigurðsson, Magnús Helgason, Melanie Ubaldo, Sigurður Guðjónsson og Þorgerður Þórhallsdóttir.

Á sýningunni Erindi skoðar listakonan Anna Júlía Friðbjörnsdóttir breytingar í vistkerfinu sem myndgerast í smáfuglum sem reglulega finnast á Íslandi. Verkin bregða upp ólíkum kerfum sem tengjast skrásetningu tegunda og siglingarfræði en þau eru innblásin af evrópskum sönglögum 19. aldar og samfélagsmálefnum nútímans.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir nam myndlist við Manchester Metropolitan University, Guildhall University í London og Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim og þess utan stofnað og ritstýrt myndlistartímaritinu Sjónauka.