Sýningarlok – Tímahvörf og comme ça louise?

Sunnudaginn 25. ágúst eru síðustu forvöð að sjá sýningarnar Tímahvörf – sýn átta samtímaljósmyndara á Hafnarfjörð, í sýningarstjórn Kirsten Simonsen, og comme ça louise?, innsetningu Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur. Af því tilefni verður boðið upp á leiðsögn um sýningarnar kl. 14, ásamt Kirsten og Guðnýju Rósu.

Á sýningunni Tímahvörfum sýna ljósmyndararnir Daniel Reuter, Marino Thorlacius, Pamela Perez, Pétur Thomsen, Spessi, Staś Zawada, Stuart Richardson og Svala Ragnars okkur hvað fangaði athygli þeirra, þegar þau mynduðu umhverfi Hafnarfjarðar á árunum 2006 til 2019. Þar ferðast þau frá innstu kimum bæjarins allt út á jaðar hans og beina sjónum sínum að því sem fellur jafnan í skuggann.

Í innsetningunni comme ça louise? tvinnast myndverk saman við hljóðverk sem Guðný Rósa vann áður út frá ljóði Steins Steinarrs, Tímanum og vatninu. Í heildina gefa þessir mismunandi þættir áhorfandanum aðeins útgangspunkt til frekari túlkunar, svo hann verður að fikra sig sjálfur í gegnum hinar ólíku tengingar og þræði sem þar má finna.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.