Sönghátíð í Hafnarborg 2019 – Snert hörpu mína

Dagskrá

Sönghátíð í Hafnarborg verður haldin í þriðja sinn dagana 28. júní–14. júlí 2019. Yfirskrift hátíðarinnar í ár Snert hörpu mína vísar í eitt vinsælasta lag hins ástsæla tónskálds Atla Heimis Sveinssonar, sem féll frá fyrr á árinu. Hátíðin heiðrar minningu Atla Heimis með sérstökum lokatónleikum, þar sem sex söngvarar munu flytja úrval sönglaga hans, en tónleikunum lýkur með samsöng flytjenda og áhorfenda.

Á Sönghátíð í Hafnarborg verður boðið upp á alls sjö tónleika með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk margvíslegra námskeiða fyrir börn og fullorðna, leika sem lærða. Listrænir stjórnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópran, og Francisco Javier Jáuregui, gítarleikari.


Dagskrá

28. júní kl. 20
Nýja söngstjarnan Andri Björn Róbertsson, bassabaritón, og Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari, flytja Söngvasveig (Liederkreis) eftir Robert Schumann, auk íslenskra sönglaga.

29. júní kl. 17
Kammerkór Suðurlands, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, frumflytur verk eftir Pál á Húsafelli með þátttöku hans á eigin hljóðfæri í tilefni sextugsafmælis listamannsins. Kórinn frumflytur að auki ný örlög eftir fjölmörg tónskáld.

30. júní kl. 16:30
Ókeypis fjölskyldutónleikar Dúó Stemmu, þar sem Herdís Anna Jónsdóttir, víóluleikari, og Steef van Oosterhout, slagverksleikari, fagna sumrinu með íslenskum þjóðvísum, þulum, ljóðum og hljóðum.

11. júlí kl. 20
Nemendur á master class námskeiði stórsöngvarans Kristins Sigmundssonar flytja aríur og sönglög ásamt Hrönn Þráinsdóttur, píanóleikara.

12. júlí kl. 20
Umbra Ensemble flytur úrval fornrar tónlistar og þjóðlaga víða að úr heiminum. Hljómsveitina skipa Alexandra Kjeld, kontrabassi og söngur, Arngerður María Árnadóttir, keltnesk harpa, orgel og söngur, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, barokkfiðla og söngur, og Lilja Dögg Gunnarsdóttir, söngur og slagverk.

13. júlí kl. 17
Söngdívurnar Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir flytja efnisskrá með tónlist bel canto meistaranna Bellini, Rossini og Verdi. Anna Guðný Guðmundsdóttir leikur á píanó og Francisco Javier Jáuregui leikur á klassískan gítar.

14. júlí kl. 17 – lokatónleikar
Minningartónleikar um Atla Heimi Sveinsson, eitt helsta söngvaskáld Íslendinga. Tónskáldið heiðra söngvararnir Kristinn Sigmundsson, Hallveig Rúnarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Alexander Jarl Þorsteinsson og Þórhildur Steinunn Kristinsdóttir (verðlaunahafi Vox Domini), ásamt Francisco Javier Jáuregui, gítarleikara, og Evu Þyri Hilmarsdóttur, píanóleikara.


Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.songhatid.is. Hátíðin nýtur stuðnings Hafnarfjarðarbæjar og Tónlistarsjóðs.