Laugardaginn 7. maí kl. 11-13 verður haldið málþing í Hafnarborg í tengslum við sýningu vöruhönnuðarins Tinnu Gunnarsdóttur, Snert á landslagi – 66°05’35.2″N 18°49’34.1″W, sem stendur yfir í safninu til 15. maí næstkomandi. Á sýningunni má sjá verk frá öllum ferli Tinnu en þungamiðja sýningarinnar byggir á áralangri rannsókn hennar í Héðinsfirði á norðanverðum Tröllaskaga. Þá er Snert á landslagi jafnframt vinnutitill yfirstandandi doktorsverkefnis Tinnu við Háskóla Íslands, þar sem hún leggur áherslu á að virkja fagurferðilega upplifun í landslagi sem afl til umbóta. Sýningin er hluti af HönnunarMars 2022.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.
Dagskrá:
Kl. 11:00
Aldís Arnardóttir, sýningarstjóri og forstöðumaður Hafnarborgar
Inngangur og kynning
Kl. 11:20
Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður
Snert á landslagi
Kl. 11:40
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, lektor við Listaháskóla Íslands
Að snerta á og hreyfa við innra landslagi
Kl. 12:00
Opnar umræður og spurningar úr sal
Um þátttakendur:
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir er lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Umhverfisheimspeki hefur verið í forgrunni í verkum hennar frá því hún hóf nám í heimspeki við Háskóla Íslands. Hún lauk MA-prófi frá Háskólanum í Lancaster árið 2006 og sneri svo aftur til Háskóla Íslands, þaðan sem hún lauk doktorsverkefni um landslag og fagurferðilegt gildi árið 2015. Rannsóknir hennar beinast að umhverfisfagurfræði, umhverfissiðfræði, fyrirbærafræði, skynjaðri þekkingu, líkamleika, landslagi, þverfaglegu starfi og þátttöku. Hún hefur birt fjölda greina og bókarkafla, auk þess að halda erindi víða hérlendis og erlendis. Bók hennar Vá! Ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar kom út í lok árs 2020.
Tinna Gunnarsdóttir er fædd á Íslandi árið 1968. Hún nam hönnun í Englandi, Þýskalandi og á Ítalíu og hefur rekið eigin hönnunarstúdíó í Reykjavík frá 1993. Verk hennar hafa verið sýnd víða, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi. Um þessar mundir gegnir hún stöðu prófessors við Listaháskóla Íslands. Tinna nýtir hönnunarrannsóknir og nytjahluti hversdagsins til að skoða umhverfi sitt, hvort sem það á við um einkarými heimilisins eða náttúrulegt samhengi. Hún setur efni og tækni í óvæntar aðstæður og skapar þannig ný sjónarhorn, útvíkkaða upplifun, kynlegt samhengi. Íslenskt landslag hefur haft mikil áhrif á meðvitund hennar og rýmisskilning, sem hún svo miðlar í gegnum efnislæga hluti.