Skuggasögur – tilraunasmiðja

Sunnudaginn 13. október kl. 13 býður Hafnarborg upp á listasmiðjuna Skuggasögur, í umsjón Berglindar Jónu Hlynsdóttur, myndlistarkonu, í tilefni af Bóka- og bíóhátíð í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Unnið verður með ljós, skugga, frásagnir og leik í þessari tilraunasmiðju. Þátttakendur klippa út form, verur, fólk, dýr, hluti, hús, fjöll og umhverfi. Svo verða úrklippurnar settar á prik eða spotta og notaðar til að segja sögur og gera tilraunir með ljós og skugga. Þátttakendur taka upp stutt myndskeið og ljósmyndir af tilraunum sínum.

Endilega takið með ykkur síma eða stafrænar myndavélar til að taka myndir og myndbönd. Þátttakendur verða að ráða við að klippa með skærum og ætlast er til að foreldrar aðstoði yngri börn.

Eins og venjulega er þátttaka í smiðjunni gestum að kostnaðarlausu, auk þess sem ókeypis aðgangur er að sýningum safnsins. Smiðjan mun fara fram í Apótekssalnum á fyrstu hæð Hafnarborgar.