Sjónarhorn – Ritaðar myndir og texti í myndlist

Miðvikudaginn 17. maí kl. 14 bjóðum við gesti velkomna á næsta viðburð Sjónarhorna, fræðslustunda fyrir eldra fólk, í Hafnarborg. Þá mun sérfræðingur safnsins spjalla um sýninguna Ritaðar myndir, þar sem sýnd eru verk eftir Jóhann Vilhjálmsson, auk þess sem rætt verður um texta í myndlist.

Jóhann Vilhjálmsson vinnur verk sín á pappír og notar til þess ýmiss konar blek og liti en síðustu árin hafa verkin farið að líkjast æ meir síðum úr fallega lýstum miðaldahandritum. Þá má segja að verkin sameini myndskreyti, til dæmis drekaflúr og leturdálka á lituðum bakgrunni. Þegar betur er að gáð sjáum við hins vegar að það sem virðist letur er ekki á neinu þekktu ritmáli, heldur eru myndirnar til þess fallnar að við lesum í þær eitthvað sem kannski verður ekki komið í orð – að við lesum með ímyndunaraflinu.

Sjónarhorn er dagskrá sem hófst í Hafnarborg vorið 2022 en safnið leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Er markmiðið að gefa innsýn í starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign með mánaðarlegum viðburðum yfir vetrartímann. Boðið er upp á kaffi og meðlæti að lokinni dagskrá.

Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.