Samtal um sýningu Hugsteypunnar

Sunnudagin 24. apríl, kl. 14 munu Listamennirnir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir koma saman og ræða við gesti um sýninguna Umgerð ásamt Jóhannesi Dagssyni heimspekingi og aðjúnkt við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og Ágústu Kristófersdóttur forstöðumanni Hafnarborgar.

Þar mun Jóhannes Dagsson meðal annars fjallar stuttlega um sýninguna sem “fagurfræðilega tilraun”. Sýningin verður notuð til að velta upp spurningum um skynjun okkar á listaverkum, um hvaða kröfur við gerum til listaverka, og hvað það þýðir að eitthvað sé “fagurfræðileg tilraun”.

Á sýningunni veltir Hugsteypan fyrir sér myndlist bæði frá eigin sjónarhóli sem listamanna en einnig með augum áhorfenda sem eru hvattir til þess að taka myndir í innsetningunni á hvern þann máta sem verkið blæs þeim í brjóst. Sé myndunum deilt á netið er þeim varpað inn í sýningarrýmið jafnóðum og þær verða þannig hluti af innsetningunni. Ræddar verða hugleiðingar eins og -hvar byrjar og endar listaverkið, -traust til áhorfenda og -hvar liggja mörk listamanna og þátttakenda.

Hugsteypan er samstarf myndlistamannanna Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur (f. 1976) og Þórdísar Jóhannesdóttur  (f. 1979) en þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Ingunn og Þórdís starfað jöfnum höndum saman undir merkjum Hugsteypunnar síðan árið 2008 og í sitt hvoru lagi við eigin myndlistarverkefni. Sem Hugsteypan hafa þær tekið þátt í fjölda sýninga t.a.m. í Kling & Bang gallerí, Hafnarborg, Listasafni Árnesinga, Listasafni Akureyrar og Gallerí Ágúst, auk nokkurra samsýninga erlendis. Efnistök Hugsteypunnar hafa verið allt frá hugleiðingum um listasöguna og eðli myndlistar til notkunar á viðurkenndum aðferðum rannsókna við gerð myndlistarverka. Þær stöllur stunda nú meistaranám í myndlist við Listaháskóla Íslands.