Samtal um málverk – Málþing

27. nóvember kl. 20 verður efnt til málþings undir yfirskriftinni Samtal um málverk í tengslum við sýninguna Vara-liti sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Í gegnum árin hefur málverkinu, þessum aldagamla miðli, reglulega verið hent út á gaddinn en í dag virðist það þó eiga hlýjan stað inni í listheiminum. Einkenni málverksins eru ef til vill önnur í dag en fyrr á tímum og forvitnilegt að skoða stöðu málverksins í samtímanum.

Þátttakendur eru þau Aðalheiður Valgeirsdóttir myndlistarmaður og listfræðingur sem nýverið hefur skilað af sér veigamikilli ritgerð um málverkið á Íslandi á 21. öldinni, myndlistarmaðurinn JBK Ransu og sýningarstjóri sýningarinnar Birta Fróðadóttir. Þátttakendur flytja stutt innlegg um málverkið auk þess sem sýningarstjóri mun segja stuttlega frá sýningunni. Í kjölfarið mun Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri Hafnarborgar hafa umsjón með pallborðsumræðum um einkenni og gildi málverksins í samtímanum.

 

Aðalheiður Valgeirsdóttir útskrifaðist af Grafíkdeild MHÍ 1982. Hún hóf ferill sinn sem myndlistarmaður með grafíkverkum og teikningum en sneri sér fljótlega alfarið að málverkinu í listsköpun sinni. Hún hefur lokið BA og MA námi í listfræði frá Háskóla Íslands. Lokaritgerð Aðalheiðar ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. öld  Þar fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því í listsköpun sinni og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla.

JBK Ransu nam myndlist í AKI-Akademie voor Beeldende Kunst í Hollandi á árunum 1990-1995. Hann hefur verið starfandi myndlistarmaður síðan og hefur gagngert unnið með málverkið. Fyrst og fremst ákveðna þætti úr sögu málaralistarinnar en ekki síður með skynjun áhorfandans á samspili lita og forma. Ransú var listgagnrýnandi Morgunblaðsins um árabil og hefur skrifað fjöldann allan af greinum um íslenska myndlist í innlend og erlend list- og fræðitímarit. Hann hefur einnig skrifað bækurnar Málverkið sem slapp út út rammanum og Listgildi samtímans: Handbók um samtímalist á Íslandi. Ennfremur er hann myndlistarkennari bæði á framhalds- og háskólastigi.

Birta Fróðadóttir er arkitekt að mennt en hefur komið víða við í starfi. Hún hlaut meistaragráðu í arkitektúr við listakademíuna í Kaupmannahöfn og starfaði þar við byggingar- og landslagsarkitektúr í 4 ár. Þaðan hélt hún til Berlínar þar sem hún starfaði sjálfstætt fyrir myndlistarmenn auk þess að vera sýningarstjóri heimagallerísins 13m. Hún hefur auk þess fengist við uppsetningar og hönnun sýninga, heimildamyndagerð og leikmyndagerð. Vara-litir er fyrsta sýningarstjóraverkefni hennar á Íslandi.