Samfélag skynjandi vera – sýningarlok, gjörningar og lokaorð

Sunnudaginn 31. október lýkur haustsýningu Hafnarborgar, Samfélagi skynjandi vera, en endapunkturinn verður settur á sýninguna með sérstakri dagskrá frá kl. 14-16. Þá munu fara fram tveir gjörningar, sá fyrsti eftir Hubert Gromny kl. 14 og sá síðari eftir Dans Afríka Iceland kl. 15, auk lokaorða í kjölfar gjörninganna.

Haustsýningin í ár er í sýningarstjórn Huberts Gromny og Wiolu Ujazdowska, sem vilja leyfa mörgum röddum að mætast, auk þess að skoða ólíka möguleika tjáningar og skynjunar. Þannig býður sýningin upp á margvíslega nálgun, með áherslu á tíma, ferli og flutning, þar sem rýmið er virkjað, kannað og nýtt á marga vegu, svo safnið breytist í stað til að mynda tengsl.

Kl. 14 – gjörningur eftir Hubert Gromny: Jörðin
Gjörningurinn tekur mið af frásögnum og myndsköpun á grundvelli boðunar, þess að hlusta á myndir og þess að hlusta á landið. Jörðin er afrakstur rannsóknar sem listamaðurinn vann út frá því að hlusta á landið í heimabæ hans Połaniec í suðausturhluta Póllands. Þá varð myndavélin að tæki til þess að nema við hlustir, hlýða á staðinn, nema óskráðar sögur og til þess að tengjast upprunanum, jörðinni, auk þess að velta vöngum yfir hugmyndum um landið sem eign.

Kl. 15 – gjörningur eftir Dans Afríka Iceland
Gjörningurinn felur í sér trumbuslátt og dans við takt sem hefur þann tilgang meðal Baga-ættbálksins að heiðra hefðir og forfeður ættbálksins, auk þess að halda lífi í arfleifðinni fyrir komandi kynslóðir. það mikilvægt að dreifa gleðinni sem hlýst af því að heyra og horfa á afríska tónlist og dans. Þá vilja flytjendurnir gefa áhorfendum tækifæri til að sleppa tökum á þeim mörkum sem samfélagið setur með því að taka þátt og upplifa heilandi áhrif trommunnar og hreyfingu dansins.

Verið öll velkomin – aðgangur ókeypis.