Samfélag skynjandi vera – listasmiðjur í vetrarfríi

Hafnarborg býður börnum á grunnskólaaldri að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum í vetrarfríi 14. og 15. október í tengslum við sýninguna Samfélag skynjandi vera, sem nú stendur yfir í safninu. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.

Klippimyndasmiðja
Fimmtudaginn 14. október kl. 13-15
Unnar verða klippimyndir og sprettibækur (pop-up bækur), þar sem hús, híbýli og verur öðlast líf á blaðsíðum bóka. Leiðbeinandi er Þórdís Jóhannesdóttir, myndlistarmaður.

Verusmiðja
Föstudaginn 15. október kl. 13-15
Litlar verur sem skynja heiminn ólíkt okkur mannfólkinu verða mótaðar í leir og fá mögulega heimili utan um sig í framhaldinu. Leiðbeinandi er Karólína Einarsdóttir, myndlistarkennari.

Smiðjurnar munu fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins og geta börn mætt ásamt foreldrum eða forráðamönnum. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins.