Safnanótt

Í febrúar á hverju ári stendur Höfuðborgarstofa fyrir Safnanótt þar sem fjöldi safna víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu hafa opið fram eftir kvöldi og bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá.

Safnanótt í ár verður haldin föstudaginn 6. febrúar og verður þá opið í Hafnarborg frá hádegi til miðnættis.

Sýningar í Hafnarborg.

Framköllun – Hekla Dögg Jónsdóttir
Sýningarsal Hafnarborgar hefur verið umbreytt í kvikmyndasýningasal, upptöku- og vinnslurými þar sem 16mm kvikmynd er unnin, sett saman og sýnd. Svarthvítir eiginleikar filmunnar einkenna rýmið og móta þá sköpun sem á sér stað innan ramma sýningarinnar. Framköllun er allt í senn skúlptúr, gjörningur og þátttökuverk þar sem Hekla Dögg kallar fram það afl sem býr í samstarfi skapandi einstaklinga en hún fær til liðs við sig fjölda listamanna sem vinna stutt myndskeið.
Sýningin Framköllun er unnin í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Neisti – Hanna Davíðsson
Í Sverrissal stendur yfir sýning á verkum Hönnu Davíðsson, konu sem bjó og starfaði í Hafnarfirði við upphaf 20. aldar þegar íslenskar konur hlutu kosningarétt árið 1915. Sýndar eru teikningar og málverk eftir Hönnu sem sýna viðfangsefni úr næsta nágrenni einkum blóm, fólk og umhverfið í Hafnarfirði auk ljósmynda.


Dagskrá Hafnarborgar

Hver erum við? – Portrettsmiðja
Kl. 19:00 – 21:00

Listasmiðja í portrettgerð fyrir börn og foreldra þeirra í umsjón Sigurrósar Svövu Ólafsdóttur myndlistarmanns. Portrett er listræn túlkun á persónu þar sem áhersla er lögð á andlit viðfangsefnisins. Í listasmiðjunni fá börn og foreldrar þeirra tækifæri til að leyfa sköpunargleðinni að leika lausum hala og gera andlitsmyndir af hvor öðru.

Á bak við tjöldin – Heimsókn í geymslur safnsins
Kl. 20:00-22:00

Gestum er boðið að skyggnast á bak við tjöldin í Hafnarborg og skoða þau undur sem leynast í geymslum safnsins í fylgd starfsmanna. Hver heimsókn er stutt og tekið er á móti gestum í litlum hópum.

Tímaflakk um 100 ár – Leiðsögn á pólsku með Karolinu Boguslawska
Kl. 20:00
Zapraszamy na zwiedzanie wystaw aktualnych w Centrum Sztuki oraz Kultury Hafnaborg po polsku. Będzie to szczególna okazja aby zapoznać się z ciekawą historią ostatniego stulecia muzeum. Oprowadzi Państwa Karolina Bogusławska historyk sztuki.

Komdu í tímaflakk með Karolinu Boguslawska listfræðing á milli sýninga í Hafnarborg, Menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Karolina fræðir gesti um Hafnarborg á pólsku og leiðir þá um sýningar safnsins, Neista og Framköllun. Tilvalið tækifæri fyrir pólskumælandi til þess að kynnast listasafninu og starfsemi þess betur.

Leiðsögn um sýninguna Neisti
Kl. 20:45
Hafnarborg býður gestum safnsins í leiðsögn um sýninguna Neisti í fylgd með Ólöfu K. Sigurðardóttur forstöðumanni Hafnarborgar. Neisti er sýning á málverkum og teikningum eftir Hönnu Davíðsson (1888-1966), merkilega konu sem lifði áhugasömu lífi sem var að mörgu leyti óhefðbundið fyrir íslenska konu á þessum tíma. Hanna bjó í Hafnarfirði og nánast allt sitt líf lagði hún stund á myndlist mótaða af aðstæðum kvenna við upphaf tuttugustu aldar.

Svarthvít veröld – Framköllun Listamannsspjall
Kl. 21:15
Hekla Dögg Jónsdóttir myndlistarmaður ræðir við gesti um sýninguna Framköllun, sem er sjálfstæður svarthvítur heimur þar sem sköpun, úrvinnsla, miðlun og viðtaka listaverks eiga sér stað í sama rými. Hér er á ferðinni innsetning sem er eitt umfangsmesta verk listamannsins hingað til.

Hó Hó Ha Ha Ha  – Hláturjóga með Sölva
Kl. 21:30
Bættu á þig brosi á vör og kátum hlátri í hláturjóga með Sölva Avo Péturssyni, hláturjógaleiðbeinanda og næringarþerapista. Hláturjóga er aðferð sem indverski læknirinn Dr. Madan Kataria þróaði og er blanda af hláturæfingum og jógaöndun. Tilgangur með hláturjóga er að efla og styrkja líkama, hugsun og sál. Hláturjóga fer fram í Apótekarsal og stendur yfir í 45 mínútur.

Óskar og Ómar – Lifandi djasstónlist á Gló
Kl. 22:00
Endaðu safnaröltið á djasstónum á veitingastaðnum Gló í Hafnarborg þar sem fólk getur sest niður, fengið sér hressingu og slakað á eftir annasamt kvöld. Lifandi tónlistarflutningur verður í boði bræðranna Óskars Guðjónssonar saxafónleikara og Ómars Guðjónssonar gítarleikara.

 

Taktu þátt í Safnanæturleiknum með því að svara þremur laufléttum spurningum og safna stimplum frá þremur mismunandi söfnum sem þú heimsækir. Þátttökublað leiksins er hægt að nálgast á öllum söfnum sem taka þátt í Safnanótt og skal því skilað í þar til gerða kassa á söfnunum fyrir miðnætti 6. febrúar.

1. verðlaun: Ferð fyrir tvo í boði Icelandair til London og aðgangur að Tate Modern
2.-3. verðlaun: Menningarkort Reykjavíkur
4. verðlaun: Frönskunámskeið á vegum Alliance Française.
4.-17. verðlaun: Árskort í Gerðarsafn, í Borgarbókasafnið, Bókasafn Kópavogs og Seltjarnarness.
18-20. verðlaun: Aðgangur fyrir tvo á Listasafn Einars Jónssonar, Gljúfrastein og bók um Hús Skáldsins.


Safnanæturstrætó

Safnanæturstrætó ekur milli allra safna á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 19 til 24. Ekið er frá Kjarvalsstöðum í Reykjavík, á milli safna. Ókeypis er í vagninn og stöðvar hann við verslunarmiðstöðina Fjörð í Hafnarfirði.

Nánari upplýsingar á www.vetrarhatid.is