Safnadagurinn

Hafnarborg tekur þátt í safnadeginum, næstkomandi sunnudag 17. maí, með skemmtilegri og um leið fræðandi dagskrá fyrir börn og fullorðna. Boðið verður uppá fjölskylduleiðangra um sýninguna MENN sem nú stendur yfir í aðalsal safnsins og hægt verður að spreyta sig á fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum sem tilvalið er fyrir fjölskyldur að leysa úr í sameiningu. Einnig mun Ólöf K. Sigurðardóttir forstöðumaður Hafnarborgar og sýningarstjóri MENN ræða við gesti safnsins um sýninguna kl. 15.  Hafnarborg er opin frá kl. 12 – 17 á safnadaginn og aðgangur er ókeypis.

Í ár halda íslensk söfn upp á safnadaginn í tengslum við alþjóðlega safnadaginn sem haldinn er í kringum 18. maí. Alþjóðaráð safna velur deginum fyrirskrift og í ár er hún Söfn í þágu sjálfbærni sem leiðir hugann að því hlutverki safna að varðveita menningarverðmæti þannig að þau megi nýtast komandi kynslóðum.

Dagskrá:

Kl 13:00 og 14:00: Fjölskylduleiðangur um sýninguna MENN. Létt og fræðandi verkefni verða í boði sem tengjast sýningunni. 

Kl 15:00: Sýningastjóraspjall. Ólöf K. Sigurðardóttir ræðir við gesti um sýninguna MENN þar sem farið verður í saumana á undanfara, ferli og heildarinntaki sýningarinnar.

Sjá nánar um sýninguna MENN hér.