Rás – Samtal um fegurð

Málþing

Í tengslum við sýninguna Rás er efnt til samtals um fegurð í Hafnarborg laugardaginn 4. október kl. 14. Hinir ýmsu fletir og birtingarmyndir fegurðar verða skoðaðir útfrá þeim hugmyndum sem birtast í sýningunni og út frá listheimspeki, fagurfræði og guðfræðilegum sjónarmiðum. Þátttakendur eru þau Aðalheiður L Guðmundsdóttir aðjúnkt og fagstjóri við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands, Dr. Gunnar Á. Harðarson prófessor í heimspekideild Háskóla Íslands, Dr. Theol. Gunnar Kristjánsson prestur í Reynivallaprestakalli og prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi og sýningarstjóri sýningarinnar Helga Þórsdóttir en hún er menningarfræðingur auk þess sem hún er menntuð í myndlist og innanhússarkitektúr. Þátttakendur flytja stutt innlegg um fegurðina en í kjölfarið hefur Helga umsjón með pallborðsumræðum um gildi og stöðu fegurðarinnar í samtímanum.

Dr. Gunnar Á. Harðarson, prófessor í heimspekideild Háskóla Íslands. Rannsóknir Gunnars hafa að mestu leyti tekið til tveggja meginsviða, heimspekisögu og listheimspeki. Á sviði heimspekisögu hefur Gunnar rannsakað sögu íslenskrar heimspeki, en á sviði listheimspeki miðlað ýmsum þáttum úr fagurfræði og listheimspeki 20. aldar, auk rannsókna í sögu íslenskrar fagurfræði. Þá hefur hann þýtt heimspekilega texta frá ýmsum tímum.

Aðalheiður L Guðmundsdóttir, aðjúnkt og fagstjóri við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Rannsóknir Aðalheiðar fjalla meðal annars um myndlist í norrænu og baltnesku samhengi í samtímanum. Aðalheiður hefur skrifað greinar og haldið fyrirlestra á sínu sérsviði ásamt því að hafa skipulagt fjölda ráðstefna um fagurfræði. Hún er einnig í ritstjórn tímaritsins ARTnord: La revue de l’actualité artistique nordique et balte.

Dr. Theol. Gunnar Kristjánsson er prestur í Reynivallaprestakalli og prófastur í Kjalarness- prófastsdæmi. Sérsvið hans í guðfræði eru trúarheimspeki og praktísk guðfræði. Hann hefur sinnt rannsóknum og ritstörfum á sviði menningartengdrar guðfræði með áherslu á bókmenntir og myndlist. Þá hefur hann fjallað talsvert um kirkjusöguleg efni, einkum Martein Lúther og hugmyndaheim siðbótarinnar.

Helga Þórsdóttir er menningarfræðingur auk þess sem hún er menntuð í myndlist og innanhússarkitektúr. Sem myndlistarmaður hefur hún haldið og tekið þátt í fjölda sýninga og einnig komið að textaskrifum um myndlist, en sýningin Rás í Hafnarborg er hennar fyrsta sjálfstæða sýningarstjórnarverkefni.