Myndasögusmiðja með Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Í tilefni Bóka- og bíóhátíðar í Hafnarfirði mun Hafnarborg bjóða börnum á aldrinum 9 – 12 ára að taka þátt í myndasögusmiðju undir handleiðslu Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur. Þar mun Lóa kenna börnunum að búa til sögur í orðum og myndum.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er tónlistar- og myndlistarkona. Hún hefur haslað sér völl í myndlist m.a. með myndasögum sínum (Lóaboratoríum). Lóa Hlín hefur numið myndlist við Listaháskóla Íslands, myndskreytingar við Parsons í New York og ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur gefið út fjölda myndasagna, á borð við “Alhæft um þjóðir” og undir seríunni “Lóaboratoríum”, einnig hefur hún myndskreytt margar barnabækur – þar á meðal bækurnar um Snuðru og Tuðru Hún hefur birt myndasögur í ýmsum ritum m.a. Grapevine og Fréttatímanum. Þá teiknaði hún, samdi handrit og talsetti hluta teiknimyndaseríunnar Hulli sem sýnd var á RÚV og á Yle TV2 í Finnlandi. Lóa er einnig söngkona og annar stofnandi hljómsveitarinnar FM Belfast.