Menningargöngur í Hafnarfirði – Þær höfðu áhrif.

Hundrað ár eru liðin frá því að því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla og er því fagnað með hátíðarhöldum víða um land.

Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis.

Fimmtudaginn 18.júní kl. 20 er menningargangan tileinkuð þessum tímamótum.

Í göngu kvöldsins mun Steinunn Þorsteinsdóttir sagnfræðingur m.a. segja frá baráttunni fyrir kosningaréttinum, frá Þorbjörgu Bergmann, fyrstu konunni sem kaus í bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði, frá þeim Þórunni Helgadóttur og Elínu Jósefsdóttur sem fyrstar kvenna settust í bæjarstjórn árið 1958. Frá kvenfélögum stjórnmálaflokkanna og nokkrum þeim konum sem þar störfuðu bak við tjöldin, konum eins og Sigríði Erlendsdóttur, Sigurveigu Guðmundsdóttur og Sigurrósu Sveinsdóttur. Fjallað verður um kvenfélög stjórnmálaflokkanna og um verkakvennafélagið. Og hringnum lokað með fyrstu konunni sem varð bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Saga hafnfirskra kvenna hefur að öllu leyti fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað með kvennasögu almennt. Saga kvenna hefur haft þá tilhneigingu að gleymast.

Saga kvenna er merkileg saga, saga brautryðjenda, frumkvöðla og má ekki falla í gleymsku. Því á henni grundvallast jafnréttisbaráttan og án hennar væri staða kvenna önnur í dag en raun ber vitni.

Gangan tekur um klukkustund og hefst kl. 20.00 við Pakkhús Byggðasafnsins. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir..