Menningargöngur í Hafnarfirði – Ásgeir G. Stefánsson og framlag hans til íslenskrar byggingarlistar

Í sumar er boðið uppá kvöldgöngur í Hafnarfirði með leiðsögn alla fimmtudaga kl. 20

Fimmtudaginn 20. ágúst kl. 20 munu Pétur H. Ármannsson arkitekt og Jónatan Garðarsson leiða göngu þar sem skoðaðar verða byggingar eftir Ásgeir G. Stefánsson byggingarmeistara.

Gengið verður frá Hafnarborg.

Ásgeir G. Stefánsson var kunnur athafnamaður og byggingarmeistari í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar. Hann gat sér snemma gott orð sem byggingarmeistari kunnra bygginga eftir Guðjón Samúelsson, m.a. sjúkrahússins á Ísafirði og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Samhliða húsasmíðum gerði hann uppdrætti af mörgum húsum í Hafnarfirði sem vitna um listfengi hans, svo sem Brekkugötu 25 og Austurgötu 40. Í bók sinni, Íslensk byggingararfleifð, telur Hörður Ágústsson steinsteypuhús Ásgeirs í anda klassíkur vera merkt framlag til íslenskrar húsagerðar. Pétur H. Ármannsson leiðir gönguna ásamt Jónatan Garðarssyni sem þekkir vel til starfa Ásgeirs í Hafnarfirði.

Pétur H. Ármannsson er fæddur í Hafnarfirði 1961. Hann stundaði nám í arkitektúr  í Kanada og Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi í þeirri grein 1991. Pétur hefur meðal annars starfað sem deildarstjóri byggingarlistardeildar við Listasafn Reykjavíkur, gestakennari við Listaháskóla Íslands, arkitekt hjá Glámu–Kím arkitektum ehf. og er nú sviðsstjóri við Minjastofnun Íslands. Hann er höfundur greina, bóka, fyrirlestra og dagskrárefnis um íslenska byggingarlist á 20. öld.

Jónatan Garðarsson fæddist í Hafnarfirði 1955. Hann stundaði nám við Flensborgarskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð áður en hann hóf störf við verslun og útgáfu. Jónatan starfaði m.a. við útvarp og blaðamennsku og hefur síðustu átta árin verið dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi. Hann hefur á undanförnum árum miðlað af fróðleik sínum um Hafnarfjörð og nágrenni bæði í tengslum við gönguferðir og með fyrirlestrum.