Menningarganga – Höggmyndagarðurinn 30 ára

Miðvikudaginn 2. júní kl. 20 mun Eiríkur Hallgrímsson, listfræðingur og leiðsögumaður, leiða göngu um höggmyndagarðinn á Víðistaðatúni. Í ár eru 30 ár liðin frá því Listahátíð var haldin í Hafnarfirði þar sem margar höggmyndanna, eftir bæði innlenda og erlenda listamenn, voru unnar í alþjóðlegri vinnustofu myndhöggvara en þar var grunnurinn einmitt lagður að höggmyndagarði Hafnarfjarðar á svæðinu. Þá mynda verkin jafnframt stóran hluta útilistaverkasafns Hafnarborgar og Hafnarfjarðarbæjar. Gengið verður frá Víðistaðakirkju.

Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Í sumar er boðið upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld kl. 20. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.