Ljóð og litir – skapandi listasmiðja fyrir fjölskyldur

Sunnudaginn 16. október kl. 15 býður Hafnarborg fjölskyldum að koma og taka þátt í skapandi ljóða- og vatnslitasmiðju í tilefni af Bóka- og bíóhátíð, sem nú stendur yfir í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Áhersla verður lögð á einfalda ljóðagerð þar sem yrkisefnið verður innblásið af listaverkum Elfu Bjarkar Jónsdóttur, heiðurslistamanns hátíðarinnar Listar án landamæra, sem heldur nú einkasýningu í Sverrissal Hafnarborgar. Þá einkenna litagleði og samspil forma listaverk Elfu Bjarkar og munu þátttakendur fara um sýninguna með listakonunni til að leita að hugmyndum fyrir sína eigin listsköpun.

Gerðar verða tilraunir með vatnsliti í ljóði og mynd, þar sem þátttakendur verða hvattir til að prufa sig áfram í frjálsu flæði og skapa sín eigin ljóðlistaverk stór og smá.

Þátttaka í smiðjunni er gestum að kostnaðarlausu – verið öll velkomin.