Sunnudaginn 30. ágúst kl. 15 mun heimsþekkta listakonan Steina ræða við gesti Hafnarborgar um verk sín en hún tekur þátt í sýningunni Heimurinn án okkar sem er haustsýning Hafnarborgar.
Steina (1940) býr og starfar í Santa Fe í Bandaríkjunum. Hún stundaði nám í tónfræði og fiðluleik. Ráðuneyti menningarmála í Tékkóslóvakíu styrkti hana til framhaldsnáms í fiðluleik við Tónlistarháskólann í Prag á árunum 1959-1964, þar sem hún kynntist eiginmanni sínum Woody Vasulka. Saman hafa þau tekið virkan þátt í gerjun og frumkvöðlastarfi vídeólistar á heimsvísu. Árið 1965 fluttu þau til New York og stofnuðu The Kitchen í SoHo á Manhattan, sem var tilraunalistamiðstöð á sviði raflistar og nýmiðla.
Á sýningunni Heimurinn án okkar verða leiddir saman íslenskir listamenn sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum og varpa ljósi á ákveðna þætti hans hvort sem um er að ræða hið nálæga eða hið fjarlæga, micro eða macro. Þannig eru hinar ýmsu víddir alheimsins afhjúpaðar um leið og leitað er samfellu og heildar.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni tilheyra ólíkum kynslóðum og eru verkin unnin í ýmsa miðla. Ásamt Steinu eru það: Björg Þorsteinsdóttir (1940), Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955), Finnur Jónsson (1892-1993), Gerður Helgadóttir (1928-1975), Marta María Jónsdóttir (1974), Ragnar Már Nikulásson (1985) og Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937).
Sýningarstjórar sýningarinnar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir en sýningartillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar 2015.
Meira um sýninguna hér.