Listamannsspjall – Sigga Björg

Sigga Björg Sigurðardóttir

Sunnudaginn 12. mars kl. 14 verður Sigga Björg Sigurðardóttir með listamannsspjall þar sem hún ræðir við gesti um sýninguna Rósa, sem nú stendur yfirí Sverrissal Hafnarborgar.

Sigga Björg vinnur með myndheim sem fjallar um veruna Rósu. Sýningin er innsetning sem samanstendur af teikningum, skúlptúrum og myndbandsverki með hljóðmynd.  Rósa er af óljósri tegund – hvorki manneskja né dýr, en glímir þó við mennskar tilfinningar og aðstæður. Í salnum getur að líta aðrar verur sem tengjast Rósu á einn eða annan hátt. Við skynjum trega Rósu og örvæntingu um leið og við sjáum hana þroskast og bókstaflega móta sjálfa sig. Teikningar Siggu Bjargar í rýminu eru bæði unnar fyrirfram en einnig skapaðar á staðnum og leggur listakonan áherslu á að tengja saman heim myndbandsins,  teikninganna og rýmisins og skapa úr því heild.

Sigga Björg Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík 1977, hún útskrifaðist frá LHÍ 2001 og lauk síðan MFA gráðu í myndlist frá Glasgow School of Art 2004. Sigga Björg hefur sýnt ein og í samstarfi við aðra víða um heim og verk hennar eru í eigu safna hér á landi og erlendis.