Listamannsspjall – Ragnar Már Nikulásson

Sunnudaginn  25. október kl. 15 mun myndlistarmaðurinn Ragnar Már Nikulásson ræða við gesti Hafnarborgar um verk sitt á sýningunni Heimurinn án okkar sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Ragnar Már notast oft á tíðum við einföld grunnform og vélar í myndmáli sínu og í verkinu Trop-op 4,0 veltir listamaðurinn fyrir sér sjónrænni skynjun, sjónvillum og hugmyndinni um fjórðu víddina.

Ragnar Már Nikulásson (1985) útskrifaðist úr MA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og lauk BA-prófi í grafískri hönnun frá sama skóla árið 2010.

Á sýningunni Heimurinn án okkar eru leiddir saman íslenskir listamenn sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum og  varpa ljósi á ákveðna þætti hans hvort sem um er að ræða hið nálæga eða hið fjarlæga, micro eða macro. Þannig eru hinar ýmsu víddir alheimsins afhjúpaðar um leið og leitað er samfellu og heildar.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni tilheyra ólíkum kynslóðum og eru verkin unnin í ýmsa miðla. Ásamt Ragnari Má (1985) eru það: Björg Þorsteinsdóttir (1940), Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955), Finnur Jónsson (1892-1993), Gerður Helgadóttir (1928-1975),  Marta María Jónsdóttir (1974), Steina (1940) og Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937).

Nánar um sýninguna hér.

Sýningarstjórar sýningarinnar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir en sýningartillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar 2015.