Listamannsspjall – Kristbergur Ó. Pétursson

Kristbergur Ó. Pétursson

Sunnudaginn 24. janúar kl. 14 verður Kristbergur Ó Pétursson með listamannsspjall í Hafnarborg þar sem hann mun ræða við safngesti um verk sín og sýninguna Hraun og mynd sem opnar í aðalsal Hafnarborgar daginn áður.

Kristbergur Ó. Pétursson (f. 1962) hefur helgað sig að mestu málaralist allt frá upphafi níunda áratugarins. Hann kom fyrst fram sem hluti af bylgju listmálara sem kenndir eru við nýja-málverkið, kraftmikið málverk sem ögraði og braut hefðir. Kristbergur hefur þróað list sína í átt að hinu óhlutbundna þar sem litaflæði og andrúm sækja í oft myrkar náttúrustemmur og drunga en myndefnið er oftar en ekki hrjóstrugt hraunlandslagið í og umhverfis heimabæ hans, Hafnarfjörð. Sérhver mynd er þolinmæðisverk, þar sem Kristbergur leggur hvert olíulagið ofan á annað í samræmi við áferð og birtu verkanna. Áferðarríkur og dimmleitur flöturinn verður eins og ævagamall og hálfgagnsær hamur eða hlífðarlag utan um lifandi innviði. Eftir margra áratuga samneyti við hraunið í heimabyggð má segja að það móti í flestu viðhorf hans til náttúru og heimsmyndar.