Sunnudaginn 23. ágúst kl. 15 munu Björn Árnason, Daniel Reuter og Katrín Elvarsdóttir ræða við safngesti um verk sín á sýningunni Enginn Staður – íslenskt landslag sem nú stendur yfir í aðalsal Hafnarborgar. Þetta er jafnframt síðasti dagur sýningarinnar.
Á sýningunni eru verk átta ljósmyndara sem allir eru búsettir á Íslandi og beina sjónum sínum að íslenskri náttúru. Ásamt þeim Birni, Daniel og Katrínu eiga Claudia Hausfeld, Edda Fransiska Kjarval, Ingvar Högni Ragnarsson, Pétur Thomsen og Stuart Richardson verk á sýningunni. Verkin eru öll unnin á árunum 2008 – 2015.
Sýningarstjórar eru Áslaug Íris Friðjónsdóttir og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir.
Um listamennina:
Björn Árnason er fæddur 1980 og útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum vorið 2012. Hann hefur haldið nokkrar einkasýningar ásamt þess af hafa haldið og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi.
Daniel Reuter fæddist í Þýskalandi árið 1976. Hann útskrifaðist frá Limited-residency MFA í ljósmyndun frá Hartford Háskóla í Connecticut árið 2013. Fyrsta bók hans, Saga heimsóknarinnar, hefur verið tilnefnd til Paris Photo-Aperture Foundation First Photobook of the Year verðlaunanna 2013 og einnig til Þýsku Ljósmyndabóka verðlaunanna árið 2015. Verk hans hafa verið sýnd í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan. Daniel býr og starfar í Reykjavík.
Katrín Elvarsdóttir útskrifaðist með BFA gráðu frá Art Institute of Boston, Massachusetts, árið 1993. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölda samsýninga víða um heim (m.a. Þýskalandi, Frakklandi, Rússlandi og BNA). Meðal helstu einkasýninga hennar eru Vanished Summer – Deborah Berke, New York 2014, Horfið sumar – Listasafni ASÍ 2013, Hvergiland – Listasafni Reykjavíkur 2010, Equivocal – Gallerí Ágúst 2010 og Sporlaust – Þjóðminjasafni Íslands 2007. Bókin Mórar/nærvídd, sem hún vann í samstarfi við Matthías Hemstock, var gefin út af 12 tónum 2005 og bækur hennar Equivocal og Vanished Summer komu út hjá Crymogeu 2011 og 2013. Katrín var tilnefnd til Deutsche Börse Photography Prize 2009 og til heiðursverðlauna Myndstefs árið 2007. Verk Katrínar má finna í fjölmörgum opinberum söfnum sem og einkasöfnum.
Nánar um sýninguna hér.