Fimmtudagskvöldið 15. október kl. 20 munu listakonurnar Brynhildur Þorgeirsdóttir og Björg Þorsteinsdóttir ræða við gesti Hafnarborgar um verk sín á sýningunni Heimurinn án okkar sem er haustsýning Hafnarborgar.
Björg Þorsteinsdóttir (1940) lauk teiknikennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands árið 1964. Hún stundaði einnig nám í grafík við sama skóla og málun við Myndlistaskólann í Reykjavík. Hún var um skeið við nám við Staatliche Akademie der bildenden Künste í Stuttgart. Á árunum 1971 – 1973 var hún styrkþegi frönsku ríkisstjórnarinnar og lagði stund á grafík við Atelier 17 og við École Nationale Superieure des Beaux Arts í París.
Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978. Hún stundaði nám við Gerrit Rietveld Academie í Hollandi á árunum 1979 – 1980 og Orrefors Glass School í Svíþjóð árið 1980. Hún lauk MFA námi frá California Collage of Arts and Crafts í Oakland í Bandaríkjunum árið 1982. Á árunum 1982, 1998 og 1999 sótti hún nám við Pilchuck Glass School í Wasington í Bandaríkjunum.
Á sýningunni Heimurinn án okkar verða leiddir saman íslenskir listamenn sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum og varpa ljósi á ákveðna þætti hans hvort sem um er að ræða hið nálæga eða hið fjarlæga, micro eða macro. Þannig eru hinar ýmsu víddir alheimsins afhjúpaðar um leið og leitað er samfellu og heildar.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni tilheyra ólíkum kynslóðum og eru verkin unnin í ýmsa miðla. Ásamt Björgu Þorsteinsdóttur (1940) og Brynhildi Þorgeirsdóttur (1955) eru það: Finnur Jónsson (1892-1993), Gerður Helgadóttir (1928-1975), Marta María Jónsdóttir (1974), Ragnar Már Nikulásson (1985), Steina (1940) og Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937).
Nánar um sýninguna hér.
Sýningarstjórar sýningarinnar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir en sýningartillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar 2015.