Leiðsögn um DIKTUR og Hraun og mynd

Sunnudaginn 6. mars kl. 14 mun Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiða gesti um sýningar safnsins. Það eru í aðalsal Hafnarborgar sýningin Hraun og mynd, verk eftir Kristberg Ó. Pétursson og í Sverrissal, sýningin DIKTUR, með verkum Ragnhildar Jóhanns en þetta er jafnframt síðasti sýningardagur hennar.

 

Eftir margra áratuga samneyti við hraunið í heimabyggð má segja að það móti í flestu viðhorf Kristbergs til náttúru og heimsmyndar. Áferðarríkur og dimmleitur flötur verka hans verður eins og ævagamall og hálfgagnsær hamur eða hlífðarlag utan um lifandi innviði.

Efniviður Ragnhildar eru fundnar, notaðar bækur sem í meðförum hennar umbreytast og öðlast þar með aðra tilvist. Ragnhildur skrumskælir notagildi þessa hversdagslega hlutar, bókarinnar, og gæðir efnislegan hluta hennar nýju lífi.