Leiðsögn með sýningarstjóra og listamönnum

Sunnudaginn 1. október kl. 14 mun Jóhannes Dagsson, sýningarstjóri sýningarinnar Málverk – ekki miðill ásamt listakonununum Huldu Stefánsdóttur og Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur ræða við gesti safnsins um sýninguna og aðdraganda hennar. Hulda og Ingunn eru meðal þeirra 9 listamanna sem eiga verk á sýningunni.

Sýningin Málverk – ekki miðill fjallar um málverkið og forsendur þess í því eftir-miðla umhverfi sem einkennir list samtímans. Er hún tækifæri til að hugsa um þá hugmynd að málverk verði best skilið sem eitthvað annað en sá miðill sem listamaðurinn velur sér að vinna í.

Auk Huldu og Ingunnar Fjólu eiga Fritz Hendrik Berndsen, Hildur Bjarnadóttir, Jakob Veigar Sigurðsson, Magnús Helgason, Melanie Ubaldo, Sigurður Guðjónsson og Þorgerður Þórhallsdóttir einnig verk á sýningunni.

Sýningarstjóri er Jóhannes Dagsson, listheimspekingur og lektor við Listaháskóla Íslands, en hugmynd hans að sýningunni var valin úr innsendum sýningartillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu ársins 2017 í Hafnarborg.