Sunnudaginn 17. janúar kl. 14 mun Ágústa Kristófersdóttir forstöðumaður Hafnarborgar leiða gesti um sýninguna Á eintali við tilveruna, sýningu á verkum frá 1982 – 2008 eftir Hafnfirska listmálarann Eirík Smith.
Sýningin er sú fimmta og jafnframt síðasta sýningin í röð sýninga Hafnarborgar síðan árið 2010 þar sem margbreyttur ferill Eiríks Smith hefur verið rannsakaður.
Ferill Eiríks Smith (f. 1925) er í senn langur og margbreytilegur. Hann hefur tekist á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum. Þar er maðurinn oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Nálgun hans hefur þannig tekið miklum breytingum í takt við tíðarandann en einnig vegna þess að listamaðurinn hefur meðvitað leitað á nýjar slóðir.
Á sýningunni Á eintali við tilveruna eru verk frá árunum 1983-2008 en það ár tók Eiríkur, í kjölfar veikinda, ákvörðun um að hætta að mála. Verkin bera það með sér að hér er þroskaður listamaður á ferð þó jafnframt megi sjá að Eiríkur heldur áfram þeirri listrænu leit sem ætíð hefur einkennt hann. Á þessu tímabili vinnur hann bæði hlutbundin og óhlutbundin verk. Hann gerir tilraunir með form og liti og oft tekur hann áhættu sem fer á skjön við meginstraum myndlistar samtímans. Þetta á bæði við um inntak og vinnuaðferðir og má í því samhengi nefna túlkun hans á andlegri tilvist mannsins og djarft litaval. Það sem helst einkennir þetta tímabil er þó glíma listamannsins við málverkið. Hann glímir við formið og eiginleika litarins, áferð, samsetningar og þá möguleika sem ólík verkfæri bjóða upp á. Andleg viðfangsefni áranna á undan eru enn áberandi á þessu síðasta tímabili auk þess sem náttúran er ætíð nálæg í verkunum.
Á síðustu árum listferils Eiríks má greina mótaða myndhugsun og persónulega sýn en viðureign hans við málverkið er hvergi nærri lokið. Andleg leit Eiríks leiddi hann á slóðir í málverkinu þar sem áður óþekkt rými gerði vart við sig. Nánast abstrakt myndflötur rofnar inn í handaheima og á mærum þessara heima er mannvera, oft lítil í samanburði við umhverfið en þó sá meginkraftur sem allt snýst um. Titill sýningarinnar Á eintali við tilveruna er sóttur í eitt af verkum listamannsins þessarar gerðar og hefur hann nýlega fært safninu það að gjöf ásamt fleiri verkum.
Á sýningunni Á eintali við tilveruna er leitast við að kynna margbreytilegt tímabil á ferli listamannsins. Þetta er langt tímabil ef litið er til þeirra tilraunakenndu og oft stuttu tímabila sem einkenndu fyrrihluta ferilsins. Eftir Eirík liggur gríðarlegur fjöldi verka og eru rúmlega 400 verk varðveitt í Hafnarborg en listamaðurinn færði safninu veglega listaverka gjöf árið 1990. Jafnt og þétt hefur verið bætt við safneignina með það að markmiði að í Hafnarborg sé varðveitt safn verka sem gefur góða yfirsýn yfir feril listamannsins.
Sýningunni er fylgt úr hlaði með útgáfu veglegrar sýningarskrár sem gerir skil öllum fimm sýningunum og ferli listamannsins Eiríks Smith. Bókin fæst í Safnbúð Hafnarborgar og öllum helstu bókabúðum.