Kvöldopnun – upplestrar og sýningarstjóraspjall

Fimmtudaginn 17. nóvember verður kvöldopnun í Hafnarborg frá kl. 19-21 en á dagskránni verður kynning og upplestur úr bókinni flæðir að – flæðir frá, sem gefin var út í tengslum við samnefnda haustsýningu safnsins, í sýningarstjórn Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, sem einnig ritar texta bókarinnar. Þá mun Sigrún Alba að auki lesa upp úr og kynna bók sína Snjóflygsur á næturhimni, sem Forlagið gaf út fyrr í haust og hefur hlotið afar góða dóma. Að endingu verður svo sýningarstjóraspjall um haustsýninguna, þar sem Sigrún Alba mun varpa ljósi á hugmyndirnar sem þar búa að baki og segja frá verkum og starfi listamannanna sem eiga verk á sýningunni. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Forlagið og mun dagskrá hefjast kl. 19:30.

Snjóflygsur á næturhimni
Ljósmyndir móta bæði minningar okkar og viðhorf okkar til umhverfis, náttúru og samferðarfólks. Ljósmyndir eru jafnframt áhrifamikill listmiðill og rannsóknartæki. Í bókinni Snjóflygsur á næturhimni rannsakar höfundur eigið líf og annarra með hjálp ljósmynda og skrifar um hlutverk ljósmynda og áhrif þeirra á minningar okkar og viðhorf. Þá er fjallað um ljósmyndina sem listmiðil og hvernig ljósmyndin getur auðveldað okkur að takast á við og koma reglu á hugsanir okkar og upplifanir. Bókin er að mestu skrifuð í Kaupmannahöfn á frostköldum vetri þegar kórónuveiran hamlaði athafnafrelsi og fékk borgarbúa til að líta sér nær og huga að sjálfum sér og umhverfinu á nýjan hátt. Snjóflygsur á næturhimni fjallar því ekki aðeins um ljósmyndir og minningar heldur fjallar einnig um það að vera kona í samtímanum, að eiga dóttur, að vera dóttir, og leita leiða til að skapa tengsl bæði við fortíðina og framtíðina, náttúruna og borgina, og sjálfa sig.

flæðir að – flæðir frá
Ströndin skilgreinir mörk hins kunnuglega heims sem við köllum heimaland okkar og er jafnframt tenging okkar við aðra heima. Ströndin er einnig átakasvæði. Þar merkjum við áhrif loftslagsbreytinga og hamfarahlýnunar á lífríkið, hækkun sjávarborðs og umbreytingar á hitastigi sjávar. Á sýningunni eiga sjö listamenn verk sem öll fjalla á einn eða annan hátt um ströndina og samband manns og náttúru í breyttum heimi. Samhliða sýningunni var gefin út bók með grein eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur, sýningarstjóra, auk formála Aldísar Arnardóttur, forstöðumanns Hafnarborgar. Þá eru í bókinni myndir af völdum verkum listamannanna sem taka þátt í sýningunni og þar má einnig finna stutt æviágrip þátttakenda. Sýningin er sú tólfta í haustsýningarröð Hafnarborgar sem hóf göngu sína árið 2011.

Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, mun einnig kynna bókina Gunnar Örn: A Retrospective, sem gefin var út af Forlaginu síðasta sumar, en samhliða útgáfu bókarinnar var efnt til yfirgripsmikillar sýningar í Hafnarborg sem spannaði feril Gunnars Arnar Gunnarssonar.

Sérstakt kynningartilboð verður á bókatitlunum þremur í tilefni kvöldopnunarinnar.

Ókeypis aðgangur – verið öll velkomin.