Kvenhetjan – Málþing

Laugardaginn 25. febrúar kl. 14 verður haldið málþing í Hafnarborg í tengslum við sýningu Steingríms Eyfjörð, Kvenhetjan.

Það er viðkvæmt í samfélagi dagsins í dag að fá karlmann til þess að tjá sig um konur eða eigin sýn á tilfinningar þeirra og stöðu. Mikilvægi þess að endurspegla samfélagið með margradda og ósamhljóma kór allra kynja er þó stöðugt og réttilega áréttað. Þá hefur hugmyndin um femíníska sýningarstjórnun fyrst og fremst snúist um að sýnd séu verk kvenna undir stjórn annarra kvenna. Hér er hins vegar tekinn annar vinkill á þá hugmynd. Steingrímur tekur sér stöðu í liði kvenna, ef svo má að orði komast, og skoðar orðræðuna um konuna sem tákn jafnt sem hina eilífu togstreitu milli marglaga veruleikans og ímyndarinnar um konur.

Til að greina og skoða stöðu listamannsins gagnvart þessu viðkvæma efni mun Birta Guðjónsdóttir, sýningarstjóri leiða samtal milli Steingríms og þriggja kvenna: Kristínar Ómarsdóttur, rithöfundar og menningar- og kynjafræðinganna  Mörtu Sigríðar Pétursdóttur og Nönnu Hlínar Halldórsdóttur.

Dagskrá málþingsins ef eftirfarandi:

  1. Ágústa Kristófersdóttir býður gesti velkomna og segir frá aðdraganda sýningarinnar.
  2. Steingrímur Eyfjörð segir frá áhuga sínum á að sýna verkin saman, frá verkunum og samræðunni í aðdraganda sýningarinnar.
  3. Bira Guðjónsdóttir kynnir þátttakendur málþingsins. Stýrir umræðum og fyrirspurnum úr sal.
  4. Með bros á vör – Nanna Hlín Halldórsdóttir
  5. Er Grýla kannski bara fúll öryrki – Marta Sigríður Pétursdóttir
  6. Hugarflugið fela þær, hugarflugið felur þær – Kristín Ómarsdóttir
  7. Umræður
  8. Kaffiveitingar og spjall.

Birta Guðjónsdóttir, myndlistamaður og sýningarstjóri, er starfandi deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands og á að baki fjölda sýninga hér á landi og erlendis.

Kristín Ómarsdóttir, rithöfundur, skrifar ljóð, skáldsögur, smásögur og leikrit og vinnur á sviði myndlistar. Hún hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna, þ.á.m. Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 fyrir skáldsöguna Elskan mín ég dey. Leikritið Ástarsaga 3 var tilnefnt til Norrænu leiklistarverðlaunanna árið 1998. Kristín hlaut Grímuverðlaunin árið 2005, Bókmenntaverðlaun DV árið 1998 og Fjöruverðlaunin árið 2008. Skáldsögur hennar hafa verið gefnar út í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Frakklandi og í Bandaríkjunum.

Marta Sigríður Pétursdóttir er fædd 1983 í Reykjavík og er menntuð í menningarfræði frá Goldsmiths háskólanum og kynjafræði frá School of Oriental and African Studies í London og hefur skrifað fjölbreyttar tegundir texta fyrir myndlistarsýningar og fjölmiðla.

Nanna Hlín Halldórsdóttir, heimspekingur, er á lokametrunum í doktorsnámi í heimspeki við Háskóla Íslands. Í verkefni sínu tengir hún saman femínískar og marxískar kenningur til að varpa ljósi á hvernig að vinnukerfi samtímans hefur áhrif á sjálfsmynd fólks og letur það til þess að sýna nokkurs konar berskjöldun. Nanna hefur einnig skrifað, kennt og haldið erindi um margvísleg efni á borð við gagnrýna hugsun, krónísk veikindi og Hungurleikana.

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er í framvarðasveit listamanna sem komu fram á sjónarsvið íslenskrar myndlistar á 8. áratug síðustu aldar. Verk hans spanna breiða notkun miðla, þar með talið ljósmyndun, myndasöguform, myndbandsverk, málverk, skúlptúrar, gjörningar, skriftir og innsetningar. Hann á að baki um 50 einkasýningar og fjölmargar samsýningar hér á landi og erlendis. Steingrímur var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007.