Nat King Cole jól – Þór Breiðfjörð og félagar. Síðdegistónar – STREYMI

Þór Breiðfjörð, Andrés Þór Gunnlaugsson, Jón Rafnsson og Vignir Þór Stefánsson.

Föstudaginn 18. desember kl. 18 munu Þór Breiðfjörð og hið íslenska King Cole tríó standa fyrir einstaklega persónulegum jólatónleikum í Hafnarborg. Tónleikarnir eru partur af tónleikaröðinni Síðdegistónum í Hafnarborg og eins og síðustu skipti þá verður tónleikunum streymt beint út á Facebook sem og hér á heimasíðu safnsins.

King Cole tríóið verður heiðrað með jólalögum og dægurlagaperlum sem það gerði frægt. Eflaust finna áheyrendur sömuleiðis þarna íslenskar jólaperlur í anda Nat King Cole, sem Þór hefur hljóðritað og flutt í gegnum árin, á borð við „Gleðileg jól, ástin mín“ og „Hin fyrstu jól“.

Nat King Cole hefði orðið 100 ára á síðasta ári. King Cole tríóið var upphafið að velgengni hans; djassgítar, kontrabassi og svo Nat sjálfur syngjandi við píanóið.

Þór Breiðfjörð hefur flutt lög fyrir landsmenn í anda Nat King Cole og fleiri flauelsbarka í mörg ár, þar á meðal með Stórsveit Reykjavíkur. Hann á farsælan feril að baki í alþjóðlegum söngleikjum auk þess að hafa unnið Grímuna hér á landi fyrir hlutverk Jean Valjean í Vesalingunum (Þjóðleikhúsið), grímutilnefningu fyrir hlutverk Óperudraugsins í Eldborg og gríðarlega farsæla uppsetningu á Jesus Christ Superstar í Eldborg þar sem Þór söng hlutverk Júdasar mörg ár í röð. Í byrjun árs lék Þór Peron hershöfðingja á móti Jóhönnu Guðrúnu í glæsilegri tónleikasýningu á söngleiknum Evitu. Þór hefur gefið út þrjár einmenningsplötur, meðal annars jólaplötuna Jól í stofunni sem hægt er að hlusta á hér: http://bit.ly/thorjol. Jólalagið hans „Heilaga nótt (vertu mér nær)“ komst í úrslit í jólalagakeppni Rásar 2 á síðasta ári.

Andrés Þór er einn fremsti djassgítarleikari landsins og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir bæði tónsmíðar og plötuútgáfu. Hann spilar reglulega í leiksýningum og fjölda tónleika hér á landi. Hægt er að lesa sér til um hann hér: http://www.andresthor.com/index.php/en/.

Jón Rafnsson er gríðarlega afkastamikill og farsæll hljóðfæraleikari og plötuútgefandi. Meðal verkefna hans má nefna tríóin Guitar Islancio, Hot Eskimos og Delizie Italiane. Hægt er að lesa meira um Jón hér: http://jrmusic.is/jon-rafnsson/.

Vignir Þór Stefánsson er einn af vinsælustu píanistum landsins, bæði í leikhúsi og á alls konar tónleikum. Hægt er að lesa um hann hér: http://tonlistarskolifih.is/…/vignir-thor-stefansson/.

Síðdegistónar í Hafnarborg eru styrktir af Tónlistarsjóð Rannís, Hafnarborg og menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar.