Hlynur Helgason – „Konkretverk á tímum ólgu í íslensku listalífi“

Laugardaginn 11. mars kl. 13 mun Hlynur Helgason, listfræðingur og myndlistarmaður, flytja erindi í tengslum við sýninguna Án titils, þar sem sýnd eru fágæt abstraktverk, einkum gvassmyndir, eftir Eirík Smith (1925-2016) sem listamaðurinn vann á fyrri hluta sjötta áratugarins þegar strangflatalistin var að ryðja sér til rúms, hér á landi sem víðar.

Þá mun Hlynur varpa ljósi á þau verk sem Eiríkur Smith sýndi á hinni annáluðu Rómarsýningu árið 1955 með tilliti til þeirrar ólgu sem ríkti í samfélagi íslenskra myndlistarmanna á þessum tíma. Eiríkur var sjálfur ekki aðili að þeim deilum sem upp komu en áhugavert er að velta fyrir sér ríkjandi tíðaranda í samhengi við verk Eiríks á sýningunni og þróun listar hans árin á eftir.

Eiríkur Smith stundaði nám við Málara- og teikniskóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem veturinn 1939-1940 og við Handíða- og myndlistarskólann árin 1946-1948. Sama ár fór hann svo til Kaupmannahafnar í nám til 1950 en árið 1951 hélt hann til Parísar þar sem hann nam myndlist við Académie de la Grande Chaumiére. Verk eftir Eirík er að finna í söfnum víðs vegar, svo sem í safneign Listasafns Íslands, Gerðarsafns og Listasafns Reykjavíkur en auk þess varðveitir Hafnarborg um 400 verk eftir listamanninn.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.