Hljóðön – Sýndarrými nr. 8

Sunnudaginn 13. október kl. 20 hefst sjöunda starfsár tónleikaraðarinnar Hljóðana í Hafnarborg með tónleikum Lluïsu Espigolé, píanóleikara, og Ingólfs Vilhjálmssonar, klarínettuleikara. Á tónleikum sínum munu þau leiða gesti í gegnum fjölbreytta efnisskrá sem segja má að einkennist a samtölum á milli andstæða. Í titilverki tónleikanna, Sýndarrými nr. 8 eftir Joanna Bailie, takast á andstæðir hljóðheimar. Annars vegar „hljóðheimur borgarrýmisins“ og hins vegar „hljóðheimur tónlistarinnar“. Fléttast verk Bailie við verk annarra höfunda á borð við Jonathan Harvey, Jörg Widmann og Gérard Grisey.

Ingólfur Vilhjálmsson, klarínettuleikari, kemur reglulega fram sem einleikari og sem meðlimur berlínska Adapter Ensemble víða um Evrópu á tónleikum og hátíðum. Má þar nefna MärzMusik og Ultraschall í Berlín, Frum-tónlistarhátíðina og Myrka Músíkdaga í Reykjavík og De Suite í Amsterdam, auk margra annarra. Hefur hann í gegnum tíðina starfað náið með fjölda höfunda að flutningi verka þeirra, jafnt höfunda af sinni eigin kynslóð sem og þekktra tónskálda á borð við Toshio Hosokawa og Helmut Lachenmann.

Lluïsa Espigolé, píanóleikari, hefur alfarið sérhæft sig í flutningi samtímatónlistar og kemur reglulega fram, ýmist sem einleikari eða ásamt kammerhópum, víða um Evrópu á tónlistarhátíðum og tónleikastöðum. Á meðal hátíða má nefna Festival Musica Strasbourg, New World Music Festival og Klangspuren Schwaz. Ásamt tónleikastaða á borð við Alte Oper og Schauspiel (Frankfurt), Akademie für Tonkunst (Darmstadt), Kunsthaus and Kunstraum (Stuttgart), ZKM (Karlsruhe). Lluïsa hefur í gegnum tíðina starfað náið með nokkrum af helstu tónskáldum samtímans, svo sem Peter Ablinger, Mark André, Michael Beil, Beat Furrer, Helmut Lachenmann, Berhnard Lang og Marco Stroppa, auk fleiri tónskálda af sinni eigin kynslóð.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiðir áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni eru verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar, sem telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtur stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.