Hljóðön – Romsa

Sunnudaginn 23. september, kl. 20, fara fram fyrri tónleikum tónleikaraðarinnar Hljóðön starfsárið 2018-2019. Það er hópurinn Stirni Ensemble sem kemur fram á tónleikunum en hópinn skipa Björk Níelsdóttir, sópran, Grímur Helgason, klaríenttuleikari, Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari, og Svanur Vilbergsson, gítarleikari. Yfirskrift tónleikanna, Romsa, er fengin úr nýju verki Hafdísar Bjarnadóttur, tónskálds, sem frumflutt verður á tónleikunum einnig verður frumflutt annað verk eftir Björk Níelsdóttur eina af meðlimum hópsins. Önnur verk sem flutt verða eru einsöngsverk eftir franska tónskáldið Georges Aperghis og hina bandarísku Meredith Monk, gítarverk eftir danska tónskáldið Bent Sørensen og kaflar úr gítarverkum Atla Heimis Sveinssonar, Dansar dýrðarinnar. Atli Heimir verður áttræður á föstudaginn 21. september og vill hópurinn fagna stórafmælinu sérstaklega með flutningi á dönsunum.

Björk Níelsdóttir, sópran, hóf ung að árum að læra á trompet hjá Einari Jónssyni í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar en síðar lagði hún stund á söng hjá Dr. Þórunni Guðmundsdóttur. Á árunum 2007-2008 var Björk trompetleikari í íslenska kvennabrassbandinu Wonderbrass á tónleikaferðalagi Bjarkar Guðmundsdóttur um heiminn til að fylgja eftir plötunni Voltu. Eftir það ævintýri hóf Björk nám í sígildum söng við Tónlistarháskólann í Amsterdam undir handleiðslu Margreet Honig, Valerie Guillrit og Jan-Paul Grijpink. Árið 2015 útskrifaðist Björk með láði úr mastersnámi þaðan og fékk hún auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir listsköpun. Björk gerir út frá Amsterdam og tekur þátt í ýmsum verkefnum; tónleikum, gjörningum, flytur samtímatónlist og djass og fæst sjálf við tónsköpun.

Grímur Helgason, klarínettuleikari, nam klarinettuleik hjá Sigurði I. Snorrasyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Einari Jóhannessyni í Listaháskóla Íslands þaðan sem hann lauk B.Mus prófi árið 2007. Ennfremur nam hann við Conservatorium van Amsterdam hjá Hans Colbers og lauk þaðan M.Mus prófi vorið 2011. Á námsárunum var Grímur einn stofnfélaga Kammersveitarinnar Ísafoldar. Grímur hefur á undanförnum árum leikið með margskonar hljómsveitum og samleikshópum, þ.á.m. hljómsveit Íslensku óperunnar, Caput hópnum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Kúbus. Hann flytur reglulega kammertónlist og einleiksverk fyrir klarinettu og er einn stofnenda Tónlistarhátíðarinnar Bergmáls á Dalvík. Grímur er fastráðinn klarínettuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari, hefur lokið burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs, B.Mus. gráðum frá Listaháskóla Íslands og Konunglega Konservatoríinu í Den Haag í Hollandi, sem og fjórum diplómum í flautuleik og kammertónlist frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi, auk mastersgráðu frá Tónlistarháskólanum í Osló. Hafdís hefur komið fram sem einleikari með Íslenska flautukórnum, Kammersveit Reykjavíkur, Ungfóníu, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á námsárunum lék hún með ýmsum hljómsveitum, m.a. Ungdomssymfonikerne, Orchestra NoVe og Norsku útvarpshljómsveitinni (KORK). Hafdís hefur frá því hún flutti heim gegnt lausamennsku við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar, auk þess að flytja kammermúsík af ýmsum toga.

Svanur Vilbergsson, gítarleikari, hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Meðal nýlegs má nefna einleikstónleika í Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Eldborgarsal Hörpu. Hann hefur komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumurinn. Árið 2011 kom út fyrsti einleiksdiskur Svans sem kallast Four Works og hefur honum verið einkar vel tekið. Svanur er einn listrænna stjórnenda og stofnenda alþjóðlegu gítarhátíðarinnar Midnight Sun Guitar Festival og er meðlimur í Íslenska Gítartríóinu sem hefur sérhæft sig í flutningi á Íslenskri samtímatónlist. Sautján ára hélt Svanur til Englands í nám við King Edwards VI menntaskólann í Totnes þar sem gítarkennari hans var Colin Spencer og útskrifaðist þaðan af tónlistar- og líffræðibraut árið 2001. Þaðan hélt hann til Spánar og sótti þar einkatíma hjá Arnaldi Arnarsyni við Escola Luther. Árið 2002 hóf Svanur nám hjá ítalska gítarleikaranum Carlo Marchione við Tónlistarháskólann í Maastricht og lauk þaðan B.Mus. gráðu vorið 2006. Sama ár hóf hann mastersnám hjá Enno Voorhorst við Konunglega Tónlistarháskólann í Haag sem hann lauk vorið 2008.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtir stuðnings Mennta- og Menningarmálaráðuneytis.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg, s. 585 5790. Almennt miðaverð kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.