Hljóðön – Röddin

Sunnudaginn 15. nóvember kl. 20 koma Emilía Rós Sigfúsdóttir, flautuleikari, og Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari, fram á tónleikum Hljóðön í Hafnarborg. Tónleikarnir bera yfirskriftina Röddin en á dagskrá eru verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Beat Furrers og Kaiju Saariaho. Einnig munu þær Emilía og Ástríður frumflytja nýtt verk eftir tónskáldið og flautuleikarann Kolbein Bjarnason sem samdi það sérstaklega af þessu tilefni. Verkin eiga það sameiginlegt að styðjast við brot úr ljóðum ólíkra skálda á borð við Plath, Eliot, Proust og Thor Vilhjálmsson en rödd flytjenda kemur þar við sögu.

Tónlistarkonurnar Emilía Rós Sigfúsdóttir og Ástríður Alda Sigurðardóttir hafa leikið saman hér á landi og erlendis síðastliðin ár meðal annars með kammerhópnum Elektra Ensemble. Haustið 2013 gáfu þær út geisladiskinn Portrait sem hlaut þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013.

Emilía Rós Sigfúsdóttir, flautuleikari, lauk burtfararprófi frá Tónlistaskólanum í Reykjavík árið 2003, Postgraduate Diploma með hæstu einkunn frá Trinity College of Music 2004 og Master of Music frá Royal College of Music 2009. Emilía hefur víða komið fram sem einleikari meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Trinity College of Music Symphony Orchestra og Orquestra Sinfonica Nacional í Brasilíu. Hún er ötull þátttakandi í flutningi kammertónlistar á Íslandi en hún er ein af stofnendum Elektra Ensemble, Tónlistarhóps Reykjavíkur 2009, og kemur reglulega fram með þeim í tónleikaröð hópsins á Kjarvalsstöðum og með Goldhawk kvartettinum sem hún lék með í Bretlandi 2006 – 2009. Emilía leikur reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands og var fastráðin þar 2011 – 2012.

Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari, lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur. Á árunum 2000 – 2003 stundaði hún nám hjá Reiko Neriki við Indiana University – Jacobs School of Music í Bloomington þaðan sem hún lauk Artist Diploma með hæstu einkunn. Námskeið og einkatíma í píanóleik og kammertónlist hefur hún sótt hjá listamönnum á borð við Geörgy Sebök, Ludwig Hoffmann, Janos Starker, Jürgen Schröder og Olaf Dressler. Ástríður hefur komið víða fram á tónleikum, ýmist sem einleikari eða með öðrum tónlistarmönnum. Hún hefur leikið einleik með Internationales Jugendsinfonie-orchester Elbe-Weser í Þýskalandi og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ástríður leikur með kammerhópnum Elektra Ensemble og tangósveitinni Fimm í tangó.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar er Þráinn Hjálmarsson.

Aðgöngumiðar á tónleikana eru seldir í afgreiðslu Hafnarborgar, á opnunartíma safnsins og klukkustund fyrir tónleika. Hægt er að panta miða í s. 585-5790. Almennt miðaverð er kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.