Hljóðön – Rapsódía

Sunnudaginn 28. apríl kl. 20 fara fram síðari tónleikar Stirnis Ensemble á yfirstandandi starfsári tónleikaraðarinnar Hljóðana í Hafnarborg en Stirni Ensemble hefur verið staðarlistahópur tónleikaraðarinnar starfsárið 2018-2019. Hópinn skipa Björk Níelsdóttir, sópran, Grímur Helgason, klarínettuleikari, Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari og Svanur Vilbergsson, gítarleikari.

Efnisskrá tónleikanna er rapsódísk, þar sem flakkað verður frjálslega á milli ólíkra hljóð- og hugmyndaheima úr öllum áttum. Frumflutt verður nýtt verk eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur, sem samið er sérstaklega í tilefni tónleikanna. Ásamt flutningi nýlegra verka Sóleyjar Stefánsdóttur, Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur og Arngerðar Maríu Árnadóttur, sem útfærð hafa verið sérstaklega fyrir hópinn í tilefni tónleikanna. Fléttast verk þeirra saman við eldri verk höfunda á borð við Cathy Berberian, Gerhard Stäbler, Giacinto Scelsi og Aldo Clementi.

Stirni Ensemble hefur látið til sín taka í íslensku tónlistarlífi síðustu misseri og komið fram í tónleikaröðum á borð við Sígilda sunnudaga í Hörpu, Myrka músíkdaga og Þjóðlagahátíð á Siglufirði svo fátt eitt sé nefnt. Hópurinn leggur mikið upp úr samstarfi við tónskáld og hefur síðustu misserin frumflutt fjölda tónverka íslenskra og erlendra höfunda. Á efnisskrá hópsins hafa íslensk verk fengið talsvert pláss og blandast saman við erlenda klassík, gamla og nýja, en Stirni hefur fengið umritað fyrir sig nokkrar klassískar tónsmíðar svo að falli að samsetningu hópsins. Kvartettinn telst enda nokkuð óvenjulega samsettur en nýstárlegur hljóðheimur hans hefur vakið athygli og eftirtekt.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiðir áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni eru verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar, sem telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtir stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Aðgöngumiðar eru seldir á staðnum. Almennt miðaverð kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.