Finnski sellóleikarinn Markus Hohti kemur fram á fyrstu tónleikum vetrarins í tónleikaröðinni Hljóðön í Hafnarborg sunnudaginn 19. október klukkan 20. Tónleikarnir bera yfirskriftina Nýir strengir en á þeim leikur Hohti á ný íslensk strengjahljóðfæri sem styðjast á einn eða annan hátt við notkun strengja í fjölbreyttri mynd. Má þar hlýða á nýjustu útgáfu hljóðfærisins dórófón (#8) eftir Halldór Úlfarsson, myndlistarmann og nýtt selló Hans Jóhannssonar, fiðlusmiðs. Á efnisskrá tónleikanna eru fjölbreytt verk eftir innlend og erlend samtímatónskáld, þeirra á meðal samlanda Markusar, þá Kaiju Saariaho og Sami Klemola, auk verka eftir Simon-Steen Andersen. Á tónleikunum verður jafnframt frumflutt nýtt verk eftir Guðmund Stein Gunnarsson fyrir dórófón.
Markus Hohti kemur reglulega fram á tónleikum víðsvegar um Evrópu og leikur allt frá klassískri kammertónlist yfir í tónlist samtímans. Hann hefur frumflutt yfir hundrað einleiks- og kammerverk og unnið náið með mörgum þekktum tónskáldum.
Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeiningar í hljóðkerfi tungumála, grunneiningar sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin er styrkt af tónlistarsjóði mennta- og menningarmálaráðuneytis og nýtur stuðnings tónlistarsjóð Ernst von Siemens.
Aðgöngumiðar eru seldir á midi.is og í Hafnarborg s. 585 5790. Almennt miðaverð er kr. 2500 en fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.
Verið velkomin í Hafnarborg,
lifandi vettvang tónlistarflutnings