Hljóðön – Hulda

Sunnudaginn 24. september, kl. 20, hefst fimmta starfsár tónleikaraðarinnar Hljóðön í Hafnarborg en þá koma fram Lilja María Ásmundsdóttir, píanó- og hulduleikari og Katie Buckley, hörpuleikari. Á tónleikunum mætast hljóðheimar hins sérhannaða hljóðfæris Huldu, ljósa- og hljóðskúlptúr og hugarsmíð Lilju Maríu, tónheimur danska tónskáldsins Per Nørgård og hljóðheimur bandaríska tónskáldsins George Crumb. Tvö ný verk eftir Jesper Pedersen og Lilju Maríu Ásmundsdóttur verða frumflutt á tónleikunum samin fyrir Huldu, hörpu, píanó og rafhljóð.

Lilja María Ásmundsdóttir (f. 1993) lauk B.Mus.-prófi í píanóleik vorið 2016 frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté. Áður stundaði hún nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Þórunni Huldu Guðmundsdóttur þaðan sem hún lauk framhaldsprófi vorið 2013. Sama ár lauk hún stúdentsprófi af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem lokaverkefni hennar var frumgerð hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu. Sumarið 2016 hlaut hún styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa skúlptúrinn en verkefnið var eitt af fimm verkefnum tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Lilja var einn af fjórum sigurvegurum í keppninni Ungir einleikarar og lék í kjölfarið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2015. Haustið 2016 var Lilja í starfsnámi hjá píanistanum Söruh Nicolls í Brighton þar sem þær unnu saman að hugmyndum tengdum innsetningum og hljóðskúlptúrum. Lilja hefur sótt tónsmíðatíma hjá John A. Speight og Söruh Nicolls og tekið þátt í tónsmíðanámskeiðum, m.a. hjá Jennifer Walshe. Lilja heldur til London haustið 2017 þar sem hún mun stunda meistaranám í tónsmíðum við City, University of London.

Katie Buckley (f. 1979), hörpuleikari, hefur verið búsett hér á landi í rúman áratug og sett mikinn svip á íslenskt tónlistarlíf sem öflugur liðsmaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands ásamt því að vera virkur þátttakandi í flutningi kammertónlistar og sem einleikari. Katie Buckley skipar, ásamt Frank Aarnink slagverksleikara, dúettinn Duo Harpverk sem hefur pantað og frumflutt fjölmörg ný tónverk eftir íslensk og erlend tónskáld. Að auki hefur Katie sjálf frumflutt einleiksverk fyrir hörpu, sinnt flutningi 20. og 21. aldar af miklum móð og starfað með fjölda tónlistarmanna úr ólíkum áttum. Var Katie tilnefnd til Menningarverðlauna DV haustið 2016 fyrir framlags síns til íslensks tónlistarlífs. Katie hóf nám í hörpuleik 8 ára gömul í heimaborg sinni Atlanta, Georgiu, BNA og hélt áfram námi í San Francisco hjá Ann Adams, í San Francisco og lauk síðar B.Mus og M.Mus, hjá Kathleen Bride, við Eastman School of Music í New York. Frá árinu 2006 hefur Katie starfað hér á landi sem leiðandi hörpuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Hljóð- og ljósskúlptúrinn Hulda er strengjahljóðfæri með innbyggðum ljósabúnaði sem stýrist af því hvernig leikið er á skúlptúrinn. Sumarið 2016 hlaut Lilja María styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa skúlptúrinn undir handleiðslu Berglindar Maríu Tómasdóttur og Jóns Marinós Jónssonar. Stefán Ólafur Ólafsson ráðlagði henni varðandi ýmislegt tengt rafbúnaði skúlptúrsins. Þegar leikið er á skúlptúrinn fyllist rýmið umhverfis Huldu af hljóðum, munstrum og litum sem breytast í sífellu. Með skúlptúrnum er skapaður opinn vettvangur fyrir samræður á milli listgreina og fyrir tilraunastarfsemi sem teygir sig í ólíkar áttir.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtir stuðnings Mennta- og Menningarmálaráðuneytis.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg, s. 585 5790. Almennt miðaverð kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.